Formáli Finns Jónssonar (Lilja)

Fra heimskringla.no
Hopp til navigering Hopp til søk
Velg språk Norrønt Islandsk Norsk Dansk Svensk Færøysk
Denne teksten finnes på følgende språk ► Islandsk.gif


Eysteinn Ásgrímsson
LILJA


Finnur Jónsson
bjó til prentunar
1913


Formálsorð Finns Jónssonar


Eysteinn, höfundur Lilju, var Ásgrímsson, en ætt hans er að öðru leyti ókunn, sömuleiðis uppvöxtur hans. Það er ekki ólíklegt, að hann hafi verið sunnlenskur að ætt eða skaftfelskur, því að hið fyrsta, er vjer vitum um hann, er að hann var múnkur í Þykkvabæ í Veri, nokkru eftir 1340. Í annál Einars prests Hafliðasonar stendur m. a. við árið 1343: "Item þá kom ok út Jón byskup Sigurðsson; tók hann Arngrím ok Eystein ad correctionem [til typtunar], bræðr í Veri í Þykkvabæ, fyrir þat er þeir börðu á Þorláki ábóta sínum, var Arngrímr settr í tájárn, en Eysteinn í hálsjárn". Sama stendur og í Flateyjarannál, og þar er þriðji "bróðirinn" nefndur (Magnús) og því bætt við, að "þeir hafi orðið opinberir at saurlífi, sumir at barneign". Það er ekki fagurt hið fyrsta sem vjer frjettum af Eysteini. Og svo mikið rennum vjer nú þegar grun í, að hann hafi verið skapsmunamaður og líklega heldur ódæll. En hvernig málinu hafi lyktað, vitum vjer ekki. Efalaust má telja, að hann hafi bætt ráð sitt og orðið að beygja sig, lofa bót og betrun. Það er eins og Finnur biskup hafi haft einhverjar frekari heimildir en vjer, þvíað hann segir (í 4. bindi kirkjusögunnar, 60. bls), að ábótinn hafi haft í hyggju að fara til Noregs og kæra málið fyrir erkibiskupi, en það hafi ekki orðið úr því og hafi hann þá stokkið til Viðeyjar og verið þar vetrarlángt (líklega veturinn 1342-43). Sögusögn er það og ekki annað, að Eysteinn hafi kveðið Lilju í fángelsinu, og því aukið við, að hann hafi átt að kveða sig upp úr því, og fleira hjátrúarkent er þar tengt við. Friðast við kirkjuna hefur Eysteinn, þvíað 1349 var hann gerður officialis (á Helgafelli). Árin 1353-54 var hann handgenginn Gyrð biskupi í Skálholti (1349-60); hann var norrænn. Eysteinn er þá með Gyrð við máldagagerðir (Skarð á Landi; Fell í Kollafirði). 1355 fóru þeir báðir utan til Noregs, og er ekki getið annars en að þá hafi alt verið vel með þeim, Gyrður kom út árið eftir, en Eysteinn ekki fyr en 1357; hafði hann þá verið tekinn inn í klaustrið á Elgisetri (við Niðarós; hann er kallaður "canonicus regularis de sancta sede"; Elgi- skýrt sem Helgi-). Kom hann nú út ásamt Eyjólfi kórsbróður Brandssyni, og voru báðir sendir af erkibiskupi sem "visitatores Islandiæ". Einn dómur þeirra er prentaður í Fornbr.s. III 116-20 (um veiði í Laxá í Þíngeyjarsýslu). Samastaðar er prentaður samníngur þeirra um viðskifti Gyrðs biskups og leikmanna. Þessir vísitatorar hafa gert sig ærið ráðríka, eftir því sem sagt er, og fjegjarna. Út af því reis fjandskapur með þeim, einkum Eysteini, og Gyrð biskupi, og kom svo, að Gyrður bannfærði Eystein (1359). Svo stendur í Gottskálks annál: "herra Gyrðr byskup bjóz til utanferðar sakir þungra greina, er í kómu meðal hans. ok bróður Eysteins; setti Eysteinn byskupi stefnur til erkibyskups, en byskup lýsti banni yfir Eysteini; hafði hann ok ætlat at sigla með byskupi til Nóregs. Gekk bróðir Eysteinn litlu síðar til handa ok sættuz at fullu. Gyrðr skipaði Eysteini offícíalis starf um Vestfjörðu". Það lítur svo út sem Eysteinn hafi verið sáttfús maður, þrátt fyrir stórlæti sitt. Árið eftir fór Eysteinn utan aftur og fjekk mjög harða útivist og vosbúð; þar um segir annállinn: "kom skip þat er bróðir Eysteinn var á við Hálogaland mjök seint um haustit ok voru mjök at þrotum komnir mest sakir drykkjarleysis". Við ár 1361 stendur loks (í Gottskálks annál): "Bróðir Eysteinn kom til Helgisetrs í Þrándheimi nærri kyndilmessu, en andaðiz á langaföstu nándir passionem domini" (þ. e. a. s. í nánd við föstudaginn lánga). Svo stutt er lífssaga þessa manns eftir sögulegum heimildarritum.
   En hann orti Lilju, og hún sýnir oss inn í hug-skot höfundar síns að nokkru. Hún sýnir oss, að maðurinn hlýtur að hafa verið mjög geðríkur, maður fullur af andagift og maður þrúnginn af orðgnótt og mælsku, og þar að auki mjög trúheitur maður með þeirri barnslegu einfeldnistrú, sem ríkti á hans dögum og reyndar að sumu leyti ríkir enn í dag. Allir þessir eiginleikar gerðu Lilju að því kvæði sem hún er.
   Hið sögulega yfirlit, eða biblíusaga, kvæðisins er tekin úr almennum guðfræðis- eða kenslubókum, og samlíkingarnar, sem stundum finnast þar, t. d. sú um fæðíngu Krists (geisiinn gegnum glerið; 33. v.) eru ekki fundnar af Eysteini, heldur eru þær teknar eftir almennum orðatiltækjum kirkjunnar. Að því leyti til er kvæðið ekki frumlegt.
   Kvæðinu er skift í kafla. Fyrst og síðast eru 25 vísur - fyrsta og síðasta vísan orðrjett eins; "al-máttigr guð" átti að vera upphaf þess og endir -; hinar 50 vísurnar eru stefjabálkar með tvennu stefi, og er kvæðið að þessu leyti svo fullkomlega reglulegt og samræmilegt, að fæst kvæði standa Lilju jafnfætis.
   Hvenær Lilja sje ort, vitum vjer ekki. En gömul sögn er til, er lætur Eystein hafa kveðið hana í fángelsinu á Þykkvabæ. Jón Egilsson segir í Biskupaannálum sínum: "Eptir það var Eysteinn borinn í róg [við Gyrð] og sögð upp á hann kona, svo biskup setti hann í myrkvastofu og þar kvað hann Lilju. Ekki þar um fleira". Hjer er víst tvennu blandað saman. En það er ekki ósennileg tilgáta, að kvæðið hafi verið ort út úr þeim atburði, sem hjer er átt við, Þykkvabæjarmálunum.

F. J.