Finnur Jónsson prófessor

Fra heimskringla.no
Hopp til navigering Hopp til søk
Velg språk Norrønt Islandsk Norsk Dansk Svensk Færøysk
Denne teksten finnes på følgende språk ► Islandsk.gif


Morgunblaðið
6. apríl 1934, s. 4-5


Finnur Jónsson
prófessor


Ræða Sigurðar Nordals prófessors, flutt við minningarathöfn Háskóla Íslands, fimtudaginn 5. apríl.


I

Þegar jeg á að mæla hjer nokkur minningarorð um Finn Jónsson látinn, kemur mjer ekki annað fyr til hugar en það, sem Haraldur konungur Sigurðsson sagði, þegar hann gekk frá gröf Úlfs stallara Óspakssonar: "Þar liggur nú sá, er dyggvastur var og drottinhollastur". Margir ágætir menn, íslenskir og erlendir, hafa helgað líf sitt og starf hinum þjóðlegu fræðum vorum, hver eftir því, sem upplag þeirra og hæfileikar vísuðu þeim til. Mig langar ekki til þess að fara þar í mannjöfnuð um það, hver mest starf hafi unnið eða nytsamlegast. En engan kann jeg að nefna, sem þjónað hafi þeim vísindum með fölskvalausari alúð og dyggari starfsemi langa æfi. Finnur Jónsson var 22 ára, stúdent á Garði í Kaupmannahöfn, þegar hann ljet frá sjer fara fyrstu vísindalega útgáfu sína af íslenskum fornritum, Reykdælu og Valla-Ljóts sögu, sem er annað bindi íslenskra fornsagna, sem Bókmenntafjelagið kostaði. Og tveimar dögum áður en jeg frjetti lát hans, barst mjer í hendur síðasta rit hans, Tekstkritiske bemærkninger til Skjaldekvad, í ritum hins danska vísindafjelags. Milli þessara tveggja rita voru liðin 53 ár, hálf öld og þremur vetrum betur. Ekkert þessara ára hefir liðið svo, að ekki hafi komið fleiri eða færri rit og ritgerðir frá hendi hans. Og það er óhætt að fullyrða, að enginn virkur dagur hafi liðið öll þessi ár, án þess hann starfaði að fræðum sínum, og altaf með brennandi áhuga og orku. Og honum var ekki tamt að ráðast á garðinn þar sem hann var lægstur. Hann vílaði aldrei fyrir sjer að takast á hendur stórvirki, sem voru alt í senn, erfið, seinunnin og leiðinleg, eins og t. d. að safna orðamun úr öllum þeim grúa handrita sem til eru af dróttkvæðunum fornu. Hann hafði altaf í huga, hvað íslenskum fræðum væri nauðsynlegast og öðrum fræðimönnum mætti að mestu gagni koma. Það er víst og satt, að þetta mikla starf var löngum unnið fyrir lítil laun eða lof. Menn voru orðnir svo vanir því, að bækur og ritgerðir kæmi reglulega frá Finni, eins og uppskera af akri, að þeir gátu því ekki sjerstakan gaum eða jafnvel yptu öxlum yfir þessum ótrúlegu afköstum. Aðeins endrum og eins var rita hans og ritgerða getið í íslenskum blöðum og tímaritum. En það lýsir manninum, að jeg hef aldrei heyrt hann kvarta yfir þessu með einu orði. Hann tók ekki eftir því. Hann beindi athygli sinni að því sem gera þurfti og að því að gera það. Og ótalin eru þau verk annara fræðimanna, sem hann las í handriti eða próförkum, útgáfur erlendra fræðimanna, sem hann bar saman við frumrit, allar þær leiðbeiningar, sem hann miðlaði öðrum af hinni víðtæku þekkingu sinni. Þessi mikli starfsmaður hafði alt af nógan tíma til þess að hjálpa öðrum, án þess það truflaði hans eigin vinnu. Svo heill og eindreginn var hann í þjónustu fræða sinna. Og mjer er það manna kunnugast, að þó að hann ætti oft erfitt með að fallast á eða jafnvel sætta sig við skoðanir annara manna, þá virti hann jafnan hvert verk, sem hann taldi unnið af alúð, og gladdist af öllu, sem honum þótti horfa til betri þekkingar og skilnings norrænna fræða, engu síður en því, sem hann sjálfur kom í verk.


II

Jeg tel það óþarft hjer, að fara að segja æfisögu Finns Jónssonar. Hún var óbrotin og hlykkja laus, hrein og bein eins og maðurinn sjálfur. Ekki skal jeg heldur telja upp þær sæmdir, sem honum voru veittar, enda helt hann þeim sjálfur lítt á lofti og jeg kann ekki á þeim full skil. Helsta æfisaga hans er fólgin í ritstörfum hans og þau voru hans höfuðsómi, lífs og liðins. Vjer skulum þá fyrst renna augunum yfir útgáfur hans af íslenskum fornritum. Eddukvæðin gaf hann út fimm sinnum, eina stafrjetta útgáfu með ljósprentaðri mynd skinnbókanna, en auk þess eina útgáfu með þýskum, eina útgáfu með dönskum og eina útgáfu með íslenskum skýringum, sem hefir verið prentuð tvívegis. Snorra-Eddu gaf hann líka út fimm sinnum, eina útgáfu með orðamun úr öllum handritum, íslenska útgáfu með skýringum, útgáfu með dönskum formála og helsta orðamun, sem hefir verið prentuð tvisvar sinnum, og sjerstaka útgáfu Ormsbókar. Auk þess lauk hann við skáldatalið í útgáfu Árnanefndar af Snorra-Eddu og þýddi Gylfaginningu á dönsku. Af norrænum og íslenskum dróttkvæðum fram að 1400 gerði hann hina miklu útgáfu í fjórum bindum. Den norsk-islandske Skjaldedigtning, sem tvímælalaust er höfuðrit hans. Þar eru kvæðin bæði prentuð eftir handritunum, með öllum orðamun, og tilraun gerð til þess að vinsa frumtextann úr orðamun handritanna, taka hann upp í sundurlaust mál og þýða hann á dönsku. Þá gaf hann út 32 af hinum elstu rímum og rímnaflokkum í tveimur bindum. Til undirbúnings þessum útgáfum og í sambandi við þær gaf hann út ýmis kvæði einstök, ritaði sand af ritgerðum og gerði tvær orðabækur, aðra, sem náði yfir Eddukvæði og dróttkvæði, endurnýjun skáldamálsorðabókar Sveinbjarnar Egilssonar, sem hefir verið tvíprentuð, hina um rímnamálið. Dróttkvæðaútgáfan hefir hrundið af stað nýjum rannsóknum þessa torráðna skáldskapar, og enginn efast um, að þar sje enn mikið ógert. En jeg hygg, að dómur Björns M. Ólsens muni þar standa óhaggaður: "Ef vísindamenn síðari tíma komast feti lengra en Finnur Jónsson í þessu efni, þá er það af því, að þeir standa á hinum breiðu og sterku herðum hans og byggja á þeim grundvelli, sem hann hefir lagt".
   Af konungasögunum er fyrsta að telja hina ágætu útgáfu Heimskringlu með orðamun allra handrita, í fjórum bindum, og textaútgáfu sama rits í einu bindi. sem mörgum er kunn hjer á landi. En auk þess gaf hann út Eirspennil (sögur Noregskonunga frá Magnúsi góða til Hákonar gamla). Fagurskinnu, Ágrip, Ólafs sögu Tryggvasonar eftir Odd munk og Morkinskinnu. Við þann flokk má bæta útgáfu hans af Færeyingasögu. Alt eru þetta undirstöðuútgáfur með orðamun, nema útgáfan af Ágripi, sem er gefin út í Altnordische Sagabibliothek með þýskum skýringum.
   Þá kem jeg að íslendingasögum og þeim ritum, sem vjer erum vanir að telja til þeirra. Íslendingabók Ara gaf hann út tvisvar sinnum og Landnámu þrisvar. Af þeim útgáfum er ein með orðamun úr öllum handritum, en í hinum tveimur eru öll handritin prentuð hvert í sínu lagi, og verða þær jafnan traustur grundvöllur allra Landnámurannsókna. Af einstökum íslendingasögum hefir hann gefið út Egils sögu, þrisvar sinnum, bæði með orðamun og skýringum, Gunnlaugs sögu Ormstungu, Gísla sögu Súrssonar, tvisvar sinnum, Bandamanna sögu, Svarfdæla sögu, Valla-Ljóts sögu, Reykdælu, Njálu og Flóamanna sögu.
   Auk þessa átti hann aðalþáttinn í útgáfu Hauksbókar, gaf út Hrólfs sögu kraka, Alexanders sögu og konungsskuggsjá og hina dönsku þýðingu Grænlandslýsingar Ívars Bárðarsonar. Af seinni tíma ritum gaf hann út Passíusálma Hallgríms Pjeturssonar eftir frumriti skáldsins og átti þátt í útgáfu Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns.
   Þetta er ekki nema lausleg upptalning eftir minni, sumu hef jeg slept viljandi og sumt kann mjer að hafa sjest yfir. En annars er auðvelt að muna allar helstu útgáfur Finns Jónssonar, og það af tveimur ástæðum. Hann var vandur í vali þeirra rita, sem hann gaf út. Hann gerði aldrei útgáfu neins, sem honum þótti lítils virði, gaf t. d. aldrei út neina riddarasögu. Hann gekk beint að höfuðritunum, þar sem honum virtist þörf á að fá betri útgáfur en áður voru til. Og hvar sem hann hefir lagt hönd að verki finst manni vera fast undir fæti. Ef allar þessar útgáfur væri horfnar eða ógerðar, væri alt annað að vera norrænn fræðimaður en það nú er. Og ef yður hefir þótt þetta þreytandi upptalning bókatitla, þá hugsið um manninn, sem vann þetta starf, skrifaði ritin upp og bar þau saman við handrit eftir handrit, staf fyrir staf. Þá fáið þjer svolitla hugmynd um ævistarf Finns Jónssonar.


III

Og þó er sagan enn ekki nema rúmlega hálfsögð. Önnur rit hans og ritgerðir skal jeg að vísu ekki reyna að telja. Hann skrifaði bækur um málfræði og bragfræði, hann skrifaði um jafnsundurleit efni og hörpuleik og lækningar á Norðurlöndnm í fornöld, hann skýrði forn viðurnefni, gaf út íslenskt málsháttarsafn, hann ritaði æfisögu Árna Magnússonar, bæði á dönsku og íslensku. Hann skrifaði sæg af stærri og minni ritgerðum í tímarit, rannsóknir og deilugreinar, ritdóma og ritfregnir, því að hann las alt, sem út kom í þessum fræðum og var jafnan búinn til sóknar og varnar, þar sem hann var ósammála um niðurstöðurnar. En meginrit hans, fyrir utan útgáfurnar og skáldamálsorðabókina, var hin mikla fornnorræna og forníslenska bókmentasaga í þremur bindum, sem tvisvar hefir verið prentuð. Hann sagði mjer það einu sinni sjálfur, að hann hefði hikað sjer mest við að ráðast í það verk af öllum ritum sínum, því að hann vissi það vel, að hann væri málfræðingur, en ekki bókmentafræðingur að upplagi og mentun, en sjer hefði virst svo brýn þörf á að það væri unnið, að hann hefði mátt til að gera það, úr því að enginn annar hefði orðið til þess. Og því er ekki að neita, að bókin ber þess miklar menjar, að vera frumsmíð og rituð meir af vilja og dugnaði en sjerstakri tilhneigingu til þess háttar rannsókna. Eigi að síður varð bókmentasagan einmitt það, sem höfundurinn ætlaðist til, hið mesta nytsemdarverk, ekki einungis fyrir það, hversu nákvæm hún er og efnismikil og fyrir þá kafla, sem bestir eru og lengi munu standa í gildi, heldur líka þar sem hún bendir á viðfangsefnin án þess að leysa þau, og eggjar til andmæla.
   En þeim, sem vilja kynnast Finni Jónssyni á ritvellinum, eins og hann naut sín best, vildi jeg benda á deilu hans við Sophus Bugge um vestræn áhrif á norræna goðafræði og bókmentir, á árunum 1890-95. Bugge bar þá ægishjálm yfir norrænum málfræðingum, flestir gleyptu dómgreindarlaust við skoðunum hans vegna nafnsins eins og af því að þá sundlaði af lærdómi hans og hugkvæmni. Finnur var þá ungur maður og fann, að hann þurfti að fara gætilega, er hann hætti sjer í hendur hins norska jötuns. Hann byrjaði á því að benda á, að ýmsar kenningar í hinum elstu dróttkvæðum benti til þess, að sum atriði í norrænni goðafræði virtist vera eldri en Bugge vildi vera láta. Þessu gat Bugge ekki neitað, en greip þá til þess úrræðis, að telja kvæði þessi miklu yngri en menn höfðu áður haldið. Gegn þessu ritaði Finnur Jónsson aðra grein og færði þar svo ljós og sannfærandi rök fyrir aldri kvæðanna, að við þeim hefir í raun og veru ekki verið haggað síðan. Átti deila þessi einna drýgstan þátt í að kveða niður öfgarnar í kenningum Bugge. Löngu seinna, 1921, hvarf Finnur enn að hinum vestrænu áhrifum í sjerstöku riti, Norsk-islandske kultur- og sprogforhold í det 9. og 10. aarhundrede, þar sem hann kemur víða við og vegur á báðar hendur. Ekki skal jeg halda því fram, að seinni tíma menn muni fallast á allar skoðanir hans í því riti, en hitt er víst, að hann heldur þar á málstað sínum með svo miklum skýrleik og þekkingu, að sú bók mun lengi standa í gildi. Yfirleitt verðum vjer að hafa það í huga, að í ýmsum þeim ritdeilum, sem Finnur Jónsson háði, t.d. um sögulegt gildi íslenskra fornrita, sem honum var mjög viðkvæmt mál, freistaðist hann til þess að fullyrða nógu mikið, af því að honum þótti á hafa verið sótt með óbilgirni. Hann var víkingur í lund og þótti gaman að bardögum. Eigi að síður geta slíkar deilur skýrt málin og hreinsað til. Framtíðin kveður upp sinn dóm um niðurstöðurnar, en málflutningurinn er samt ekki unninn fyrir gíg.
   Og enginn vafi getur leikið á dómi framtíðarinnar um vísindastarf Finns Jónssonar í heild sinni. Hann hefir rutt og jafnað brautina fyrir alda og óborna iðkendur íslenskra fræða, jafnt með þeim verkum sínum, sem standa munu óhögguð, og hinum, sem um þarf að bæta og um verður bætt. Hann trúði á gildi þessara fræða, og sú trú mun sjer ekki til skammar verða. Hann þjónaði þeim með dygð og hollustu, og hann óx svo á þeirri þjónustu, að hann var utan lands sem innan viðurkendur sem einn af höfðingjum norrænna vísinda.


IV.

Um mannkosti og skaplyndi Finns Jónssonar skal jeg ekki vera fjölorður. Jeg hef þar engu við að bæta og ekkert af því að taka, sem jeg sagði um hann, þegar hann var sjötugur (í Skírni 1928). Hann var óvenjulega heill maður í lífi sínu og hátterni öllu, eins og í vísindastarfi sínu. Hann hefir sjálfur fundið besta lýsingu þess, sem hann vildi vera og var, í þessu erindi úr Hávamálum, sem hann einu sinni valdi sjer að einkunnarorðum:

Eldr er bestr
með ýta sonum
ok sólar sýn,
heilindi sitt
ef hafa náir
ok án löst at lifa.

Þorsteinn Erlingsson sagði einu sinni við mig um hann þessi fögru og minnistæðu orð: "Til hans vissi jeg aldrei óhreint orð nje verk". Betri vitnisburð frá einum hinna dómsvísasta og skarpvitrasta samtímanni get jeg ekki hugsað mjer.
   Þjer verðið að virða mjer til vorkunnar þó að jeg geti ekki lokið þessu máli án þess að minnast á mín persónulegu kynni af Finni Jónssyni. Það eru nú senn 28 ár síðan jeg byrjaði nám mitt í Kaupmannahöfn undir handleiðslu hans, árum saman hittumst við að heita mátti daglega og altaf höfum við skipst á brjefum, þegar við vorum ekki samlendis. Við höfum oft verið ósammála, bæði um meginatriði og smáatriði í norrænum fræðum, og við höfum aldrei sneitt hjá því að ræða um þessi atriði. En aldrei hefir af þeim ástæðum borið hinn minsta skugga á vináttu okkar. Nú, þegar hann er látinn, sakna jeg ekki fyrst og fremst fræðimannsins. Starfi hans hlaut fyrir aldurs sakir, hvort sem er að vera að mestu lokið. Verk hans eru enn hjá oss og verða ekki frá oss tekin. Jeg gleðst yfir því, að dauði hans var gæfusamlegur, eins og líf hans hafði verið, að hann fekk að halda starfskröftum sínum og starfsgleði til æfiloka og þurfti ekki að lifa sjálfan sig. En jeg sakna eins hins besta manns og drenglyndasta vinar, sem jeg hef þekt, jeg sakna áhugans og hlýjunnar, sem frá honum streymdi, heiðríkjunnar, sem var í kringum hann, og það fæ jeg aldrei bætt. Og þetta veit jeg að eru tilfinningar allra þeirra, sem þektu hann best.


V.

Með Finni Jónssyni er síðasti maður merkilegrar og mikilvirkrar kynslóðar íslenskra fræðimanna til grafar genginn, þeirra manna, sem voru lærisveinar Jóns rektors Þorkelssonar og Konráðs Gíslasonar og heldu áfram starfi þessara tveggja manna, Jóns Sigurðssonar, Guðbrands Vigfússonar og samtíðarmanna þeirra. Þessi kynslóð, Finnur Jónsson, Björn Magnússon Ólsen, Jón Þorkelsson yngri, Valtýr Guðmundsson og fleiri, hafa rutt brautir, hver á sínu sviði, fyrir þá, sem nú lifa og á eftir koma. Hin unga íslenskudeild háskóla vors á þeim mikið að þakka. Finnur Jónsson sýndi hug sinn til þessarar stofnunar og trú sína á framtíð hennar með því að ánafna henni alt hið dýrmæta bókasafn sitt eftir sinn dag. Og vjer getum ekki heiðrað minningu hans betur á nokkum annan hátt en með því að reyna að bregðast ekki þessu trausti hans, með því að vinna í þjónustu þeirra fræða, sem hann helgaði líf sitt, með sömu dyggð og hollustu og hann, hver eftir sinni getu. Óskum þess, að frá Háskóla Íslands komi kynslóð eftir kynslóð af íslenskum fræðimönnum, sem verðir sje að taka við því merki, sem borið hefir verið fram að þessu með slíkum sóma.