Formálsorð (Fernir forníslenskir rímnaflokkar)

Fra heimskringla.no
Hopp til navigering Hopp til søk
Velg språk Norrønt Islandsk Norsk Dansk Svensk Færøysk
Denne teksten finnes på følgende språk ► Islandsk.gif


Fernir forníslenskir rímnaflokkar


er
Finnur Jónsson
gaf út 1896


Formálsorð


Rímnakveðskapur hófst á Íslandi á 14. öld, og er Ólafsríma Einars Gilssonar (um Stiklastaðabardaga) talin ellst allra rímna. Á 14. og 15. öld stóð þessi kveðskapur í miklum blóma, og var þá allur fjöldi rímna kveðinn. Allar þessar rímur eru nefndar hinar eldri til greiníngar frá þeim rímum, er ortar vóru eftir siðabótina hjer um bil. Aðalmunurinn er einkum tvenns konar; eldri rímurnar eru ortar eftir hinum fornu bragreglum og með fornu atkvæði samstafna og raddstafa (smbr. Bragfræði mína), og má og að því leyti telja þær með fornaldarbókmentum. Í annan stað eru flestar af þessum rímum til á skinni (einstöku eru aðeins til á pappír og er upphaflega skinnbókin týnd og tröllum gefin). En það getur aldrei orðið skotaskuld úr því, að sjá, hverjar rímur eru fornar og hverjar eru ýngri.
   Þessar rímur vóru frá upphafi ortar útaf innlendum goðasögnum og fornum fræðum, innlendu (norrænu eða íslensku) söguefni (smbr. Ágrip mitt af bókmentasögu Ísl.); en þess var eigi leingi að bíða, að skáldin færu einkum og sjerílagi að yrkja útaf ævintýrum og uppspunnum sögum, innlendum (Fornaldarsögum) og útlendum, og er nú til mesti grúi af þess konar rímum; sýnir það best, hvern smekk menn höfðu á Íslandi um 1400 og þar á eftir.
   Þessar rímur hafa margfaldlega þýðíngu. Fyst og fremst eru þær þá merkur liður í bókmentum vorum eftir eðli sínu, og ber þá að skoða þær á fagurfræðilegan hátt. Í öðru lagi eru þær afarmerkar vegna efnis síns, og ber það mest til, að sögur þær, er rímurnar eru ortar útaf, annaðhvort oft eru gjörtýndar eða þá aðeins til í ýngri uppskriftum og afbökuðum; rímurnar sýna þá söguna í eldri og betri mynd (t. d. Griplur); þess er vert að geta, að þegar efnið er útlent, t. d, tekið úr fornfrönsku kvæði, er þetta kvæði stundum týnt og efni þess því aðeins til í íslenskum rímum: þessar rímur eru því allmerkar firir útlenda bókmentasögu, og það hafa fræðimenn löngu sjeð. - Í þriðja lagi hafa rímur þessar einstaka þýðíngu firir íslenskt mál á 14. og 15. öld; hendíngar og bragsmeðferðin sýna betur en nokkuð annað, hvernig málið var þá í öllum greinum og hverjum stakkaskiftum það hafði tekið síðan á 13. öld til dæmis að taka. Það mætti því semja fullkomna lýsíngu málsins á því skeiði, er nefnt var, aðeins eftir rímunum. - Auk þessa er mart enn smávegis, er til mætti telja.
   Það liggur nú í augum uppi, að lángæskilegast væri, að allar þessar rímur yrðu prentaðar í einni heild og eftir þeim kröfum um nákvæmni, sem nú eru gerðar. En þetta er geysimikið verk og bundið stórmikilli firirhöfn og kostnaði; það er óhætt að segja, að slík útgáfa á lángt í land enn. Þess vegna er gott, að stöku og stöku rímnaflokkar verðir gefnir fyst um sinn út hver í sínu lagi, eða fleiri saman, eftir því sem verkast vill. Hver sannur fornfræðíngar fagnar, því fleiri rímur sem eru leiddar í ljós smám saman, enda spillir það á eingan hátt firir því, að rímurnar verði einhvern tíma síðar gefnar allar út í einu lagi. Firir þá menn, af alþýðu Íslands, er enn unna rímnakveðskap, eru þessar rímur að minnsta kosti gamans lestur, enda eru þær víðast vel ortar og smellnar, oft og tíðum vel og hnittilega orðaðar; þær eru að öllum jafnaði auðskildar, málið ljóst og ekki sjerlega edduborið.
   Jeg hef í þetta sinn ráðist í að gefa út fernar af þessum fornrímum. Þær eiga að því leyti sammerkt, að þær eru allar kveðnar útaf fornnorrænni goðafræði og fornsögnum, sem henni eru skyldar, og eru nú ekki fleiri rímur til útaf þess konar efni; þessir flokkar eru því heild út af firir sig, og má vel hlýða, að prenta þá saman.
   Lokrur og Griplur hafa aldrei verið prentaðar fyrr í heilu líki; Þrymlur og Völsúngsrímur hafa verið prentaðar í Eddubók Möbíusar, (með Möb. í aths. er vísað til þeirrar bókar), en sú bók er í fæstra höndum og fullkomlega úrelt Eddukvæðaútgáfa, sem einginn kaupir nú á dögum nema ef vera skyldi rímnanna vegna, og eru þær ekki fyllilega rjett prentaðar. Það var því full ástæða til þess, að fella ekki þessar rímur undan; og því fyllri, sem Völsúngsrímur að minnsta kosti eru mjög merkar og oft notaðar af fræðimönnum.
   Lokrur eru ortar útaf ferð Þórs til Útgarðaloka (og eftir honum hafa rímurnar nafn sitt), er lesa má í Snorra Eddu, í Gylfaginníng kap. 43-47, og er þar fylgt annaðhvort samskonar handriti sem Konúngsbók er eða Ormsbók (Wormianus), en þær eru náskyldar. Oft og einatt eru höfð alveg, sömu orð og setníngar í rímunum, sem eru hjá Snorra, enda er saga hans þrædd (en stundum vantar auðsjáanlega vísur í, og er þess getið neðan máls). Þótt æskilegt væri og fróðlegt, verður ekki komið því við hjer, að fara út í frekari samanburð á sögunni og rímunum, hvorki þessum nje hinum, sem eftir fara.
   Þrymlur eru ortar út af Þrymskviðu (eðaHamarsheimt). Er í rímunum farið stundum nokkuð öðruvísi með efnið, það er orðum aukið; ýkt og gert kátlegra á ýmsan hátt (I 1-11 er sjálfsagt frumort af höf.; eins er t. d., upptalníng jötna og tröllkvenna í III 6-7 hans eigin viðbót), og má segja, að höf. hafi ekki farið ósmekklega með efnið.
   Griplur eru ortar útaf sögu Hrómundar Gripssonar, en sú saga er nú löngu týnd (1). Hrómundarsaga, sem nú er til, er síðari manna tilbúníngur. Þessar rímur hefur prófessor E. Kölbing rannsakið í hinu fróðlega riti sínu: Beiträge zur vergleichenden geschichte der romantischen poesie und prosa des mittelalters, Breslau 1876; hefur hann og þar prentað kafla og kafla úr þeim og borið þær saman við söguna. - Á eftir Völsungakviðu enni fornu (í Eddu) stendur meðal annars svo: »Helgi ok Sigrún er kallat at væri endrborin. Hét hann þá Helgi Haddingjaskati, en hon Kára Hálfdanardóttir, svá sem kveðit er í Káruljóðum, ok var hon valkyrja«. Það er vafalaust, að efnið í þessum Káruljóðum, sem eru týnd, hefur verið það sama sem í síðasta kaflanum í Hrómundarsögu eða rímunum útaf henni, og er það mjög merkilegt og mikils vert.
   Völsúngsrímur sýnast ekki beinlínis kveðnar útaf neinni skrifaðri sögu, en efnið í þeim svarar til efnisins í 1. kafla Völsúnga sögu (kap. 1-8); höf. sýnist að hafa þekt söguna eftir munnlegri frásögn og sett allt svo saman. Að minnsta kosti er það bert, að I 1-50 er frá hans eigin brjósti og efnið tekið nokkuð úr hinum svonefnda formála firir Snorra Eddu og fystu kapítulum) Gylfaginníngar. Þó er ekki víst, nema hann hafi haft einhvern skráðan samsetníng firir sjer, að því er aðalsöguna snertir. Að efni og framsetníngu eru þessar rímur allmerkar.
   Lokrur, Þrymlur og Völsúngsrímur eru allar til á skinni, en aðeins í einni bók, 604 g í 4° í Árnasafni, og vantar þó upphafið á Þrymlum. Griplur eru til í heilu líki aðeins í einu handriti, 610 4° í Árnasafni; það handrit er með hendi Jóns Gissurssonar og er ritað eftir týndri skinnbók; uppskrift Jóns er góð og að öllu samtöldu nákvæm nema að rjettritun. Þar næst eru rímurnar í rímnabókinni í Wolfenbüttel (W); er til afskrift af henni í 3 bindum í Árnasafni 387, 2°; Völs.r. eru í 2. bindinu, ritaðar af Gísla Brynjólfssyni, og er það mein við þá uppskrift, að stafsetníngu skinnbókarinnar er ekki fylgt. Í þessari bók vantar alla fystu rímu og 53 fystu erindin í annari. Þar að auk er tekstinn þar mjög slæmur; erindunum er oft rótað afleitlega um, einkum í 3. rímu, og er það af því víst, að rímurnar eru ritaðar effir minni, eins og Kölbing hefur athugað; svo er og víða mjög afbakað, orð og setníngar. Loks er upphafið og endirinn (I 1-36 og VI 37-58) til í 146a 8º í Árnasafni; það er rímnabók Jóns Finnssonar í Flatey; og hefur þetta handrit eflaust verið allgott (2). Tekstinn er lángbestur í 610, en þó má leiðrjetta hann víða eftir hinum, einkum W, og það hef jeg gert, þar sem mjer þótti þurfa, en oft er vafasamt, hvað upphaflegra er, þegar um orðamun er ræða; ef hvorttveggja er að öllu samtöldu jafngott.
   Nöfnin á rímunum eru tekin eftir þeim sjálfum; »Lokrur« stendur í síðasta erindinu (bls. 10), sömuleiðis »Þrymlur« (bls. 16), ennfremur »Griplur« í næstsíðasta erindinu í þeim rímum. Þetta er lagleg nöfn, er stafa frá höfundunum sjálfum, og er auðvitað sjálfsagt að halda þeim. Í hdr. Er titillinn stundum eins: »lokrur eru þetta«, smbr. »íj lo(a)«, »hier er ííj lokra ríma«, »íííj lo(w)ri (?)«; [í Þrymlum eru eingir titlar, annað en »íj.ri(?)« »ííj .... n (þeas. m?)s(?)ʀíma]; í W eru eingir titlar í Griplum; í 146 er titillinn: »Hier ʙyriar Hromundar ʀijmur«, í 610 »Hromundar ríjmur« (svo er framvegis »Aunnur Hr. rima, þridia osfrv., nema aðeins »fiorda rima«); en þetta nafn er til búið af riturum. - Hvað nú Völsúngsrímur snertir, er titillinn bls. 43 orðrjettur eftir hdr.; titlar yfir einstöku rímunum eru svo: »onnvr rima«, »ííj. ʀima«, »íííj .. wols ʀima", »v. ʀima volsung(?)«, ».vj. rima vols«, eftir þessum titlum mætti styst og lagbest nefna rímurnar:Völsúngsrímur, eins og líka gert hefur verið.
   Um höfundana veit maður ekkert, nema hvað höf. Völs.rímna.kallar sig í IV 49 »Vitulus vates« (3); þetta hafa menn skilið svo, sem það væri sama sem »Kálfr skáld« á íslensku, og væri það þá sami maðurinn sem Kálfr bróðir Hallsson (um 1400; sjá J.Þork. Digtningen. osfrv. bls. 235-7).
   Allar eru þessar rímur sjálfsagt ortar um 1400. Að svo stöddu verður ekki sagt nánara um tímann.
   Um aðferð mína við útgáfu þessa er það í stystu máli að segja, að jeg hef prentað rímurnar nákvæmlega eftir handritunum með þeim afbrigðum, að jeg hef leiðrjett alt það sem mjer fanst rángt vera og auðsjáanlega afbakað af riturum, en jeg hef ævinlega getið þess neðan máls, hvað í hdr. Stendur. Með "..." eru aðkendar afbakanir, sem jeg hef ekki getað leiðrjett. Braghátturinn hjálpar oft ágætlega til að leiðrjetta tekstann, einkum t. d. Annar eins og sá, sem G. II er ort undir; ef þær tvær hendíngar í hverju vísuorði öndverðu hefðu ekki verið, hefði eingum dottið í hug, að t. d. Einninn (19. er.). er afbakað úr Errinn eða margar (sst.) úr miklar eða Harðliga (22. er.) úr Höldum eða gylltr (25. er.) úr. geitr osfrv. (Smbr. og G. V). Það má telja víst aðþað er mart í hdr., sem er rángt, þ.e. öðruvís en skáldin sjálf kváðu, en þó málrjett, og dettur eingum í hug að leiðrjetta það. Hvort jeg hafi hitt alstaðar á hið rjetta, læt jeg lesendur dæma um.
   Í annan stað hef jeg ekki farið eftir rjett- (eða ráng-)ritun handritanna (4) (nema neðan máls, og þó ekki alveg í afskrift Gísla af W), heldur hef jeg reynt að semja ritháttinn þ. e. orðmyndirnar sem næst eftir því, sem ætla má, að skáldin og samtíðarmenn þeirra hafi talað almennt. Í þessu efni er mest farandi eftir bragreglum og hendíngum, enda hef jeg þá og tekið nákvæmlega eftir orðmyndunum í öllum, öðrum fornrímum, sem prentaðar hafa verið. Jeg hygg, að það sjeu aðeins smámunir, sem vafi geti leikið á, en í öllu verulegu er það víst, hvernig rita skal, og skal jeg nú skýra frá því helsta, þvíað jeg get ekki farið hjer svo nákvæmlega út í það mál, sem æskilegt væri, og liggja þar til ýmsar orsakir.
   Raddstafaleingd: jeg hef alstaðar ritað é (ekki je); það er auðsjeð, að raddstafurinn hefur verið lángur, á því, að einmitt þær samstöfur (t. d. þér, mér) yrðu (styttar þ. e.) rángar og eingar aðrar, eða með öðrum orðum: þar sem skáldin gæta þess vandlega, að hafa samstöfu lánga (t. d. fysti liður ╩ x), þar yrði hún stutt (1. liður ╦ x) aðeins þar sem orð með é (je) með einföldum samhlóð á eftir standa. Á einstöku stað sýnist é vera sett móti e, og er það þá annaðhvort ónákvæmar hendíngar, sem stundum hittast, eða - ef til vill - vottur þess, að hinn ýngri framburður var farinn að brydda á sjer, og skáldin svo einstöku sinnum leyft sjer að nota hann, en þó forðast það sem mest. Í þessu sambandi skal þess getið, að samstafan verður oft (stutt þ. e.) röng, þar sem hef stendur í 1. persónu (hef eg); jeg hygg að þat eigi ekki að rita hefi (uppleysíng), heldur hefr (eg}, eins og t .d. í V. V 27 r hefur snemma komist inn í l. pers. frá 2. og 3.; eins á víst eflaust að rita fær eg G II14 (smbr. gjörir þ; II 4). - Lángan raddstaf hel jeg ritað firir framan ng og nk (-áng, -íng, -úng, eing) nema öng (ekki aung); leingdin hefur hjer hafist nokkru síðar en í ,hinum, enda er oftast ritað o í hdr. Svo hef jeg og ritað í í tíginn, sjá V. II 24. Hljóðvarp af a rita jeg alstaðar ö (ekki ǫ) og táknast þar, með hinn ýngri framburður þess hljóðs á Íslandi. Aðeins í stöku orðum og þó stöku sinnum - og var það leyfi - sögðu skáldin a: hand L. I 4, hafn G. VI 5, hall V. III 32, rand V. III 19, VI 25, skamm G. IV 40. Hið ýngra hljóðvarp af á á eftir v hef jeg alstaðar ritað (ó), nema á stöku stað þar sem hendíngar heimtuðu á (Váli G. II 53, en Vóla - í hend. - V 14, kván V. I 53, tvá L. I 10 - í hdr. tua -, svá þ. III 9,V. I 37, en svó G. V 47, vár þ. III 18, en t. d. vóðir G. II 10, vórir V. I 11 osfrv.). Í Ǫðlíngr hef jeg ætíð ritað au, enda er og oftast ritað svo í hdr., og þar að auk er það allforn framburður við hliðina á ó. Mismunandi hljóð eru - eins og enn þann dag í dag - höfð í orðinu nótt (nótt: þrótt L. II 22, nátt: brátt L. II 7); hef jeg þar haldið rithætti hdr. Sama er að segja um tvímyndir sem vér: vær, þar hef jeg fylgt hdr. þar sem hendíng heimtar óvanalega raddstafi á einstöku stað hef jeg ritað svo, t. d. otta á móti hrotta G. II 58 (en átta V. I 14), vén á móti knén V II 35 (en vænt IV 12), kúng- á móti úng- G. II 27; alt slíkt er »skáldaleyfi«, er þó styðst við framburð einstakra manna eða sveita. Þar tilheyrir og orðmyndin sun G. V 38, en ekki hun (sst); það var almennur framburður, þó hefði átt að rita hún Þ. III 19 (prentvilla er hún G. IV 28). Tvau - en ekki tvö, þótt svo sje ritað í hdr. - er hið eina rjetta, smbr. L. I 13. Í endíngunni -ligr hef jeg ætíð ritað i (smbr. G. VI 12, V. I 52), nema á stöku stað, þar sem hendíng heimtar e (L. II 18, smbr. II 13); ef annars kemur firir e, er það prentvilla. Í fornafninu hverr (stofninum hverþ) er eflaust eitt rjett að rita e (ekki ö), smbr. Þ. III 11, G. II 43, III 6 osfrv.
   Að því er samhljóða snertir, skal fyst um tillíkíngar talað. Í rímum þessum er r orðið að 1 og s á undan l og s; á því að rita kall, jall, valla, gjölla (smbr. L. I 26, G. II 45, V. I 50, III 29, IV 44, VI l), þuss, foss, besserkr (G. II 49), enda þótt hinar eldri myndir komi - örsjaldan - firir (fors V. I 2, ef hjer á ekki að lesa Boss: foss, og ef fors er ,ekki hvorugkenda orðið, sem valla mun þó vera). - Þar næst eru úrfellíngar stafa, og þá þriðja stafs einkum á undan tveimur samhljóðum (fyst - ekki fyrst - G. I 67; syskin osfrv.) og þá líka tz = ts): veisla, líst (: vist L. II 27; meiðslin L. I 20 ætti því að vera meislin og byggða L I 5 bygða) osfrv. (5) - Styttíng eða úrfellíng samhljóðs á sjer stað í enda orðs (rr gert, að r, sss) á eftir löngum samhljóð (Týr: snýr L. I 12, smbr. snýr: dýr L. I 29, Týr: dýr L. III 30, þór: stór L: IV 9, stór: fór Þ. I 11 osfrv.); undanlekníng er fúss: húss G. III 10, ef hjer á ekki að lesa fús: hús (eignarfall); í líkum tilfellum (t. d. nn: n) er hdr, fylgt (þjón L. I 7, svein L. III 19; dæl Þ. I 20 heimtar hendíng). Eins er ritað eitt r í orðum sem næri (G. III 31, VI 51). - Á eftir stuttum raddstaf er þar á móti rjett að rita tvöfaldan samhljóð (burr: kurr Þ. III 12, styrr: kyrr G. IV 49, örr: knörr V. IV 49, enda benda bragreglur víða á það, svo að ótvírætt er); undantekníng er þó snar L. I 9, ef hjer er ekki ónákvæm hendíng. -r er íhdr. oft fellt úr í orðum, sem enda á -íngr, -úngr, -mundr, og hef jeg haldið rithætti hdr. á hverjum stað í þessum orðum. - Tvöfalt m hef jeg ritað í framm (smbr. Þ. I 20); undantekn. er fram G. I 9; sama ætti líklega að gera við um; þó hef eg aðeins einu sinni ritað umm, þar sem bragur heimtar (G. I 40); þó er umm hjer atviksorð með áherslu (en ekki forsetníng). - Innskots-r í beygíngum (fylkir - þolfall, þáguf. -, fylkirs osfrv.) hef jeg haldið, þar sem svo er í hdr.; annars standa venjulegar myndir. - Í hdr. er ætíð ritað Rerr- í Völs., en það er rángt. - Linun samhljóða: k, t er alstaðar höfð, þótt öðruvís sje ritað í hdr., nema þar sem hendíng heimtar (að, það - L. I 17, II 38, G., III 51, IV 42, V 12, náð G. II 28, V. II 10, mjög V. I 16, - -ið greinirinn -; undantekníng - fornmyndin höfð á stöku stað: þat G. IV 19).
   Að lyktum skal stuttlega talað um meðferð einstöku orðmynda og um stöku orð. Í hdr. er ritað Tyrkvir V. I 11, þar til svararTyrkum V. I 41 (aftur á móti stendur Tyrkja V. I 19 ), smbr. líkum V. I 32; snildi (ef mildi er ekki hið rjetta V. II 14) álít jeg koma af snild (smbr. nipti f. nipt osfrv); vintur (= vetr) hef jeg haldið, þar sem það er íhdr.; bróður nefnif. V. V 19 tel jeg eigi villu, smbr. móður L. III 38; fleygir G. II 25 og mær G. V 25 á eflaust að vera fleirtala og er víst heldur ekki villa; lér (f. , nú ljár) er nýmyndun (G. V 18). Greinirinner í hdr. Ýmist ritað en, eða hinn; jeg hef alstaðar haldið þessum myndum óbeyttum, en þar sem greininum er skeytt aftan við, er ætíð ritað -in-, þótt í hdr. sje stundum -en-, óra = vora V. IV 8 er sjaldsjen mynd í þessum rímum, enda er orðið tilgáta mín, sem styðst við, að örva fundir er ljeleg kenníng og á valla við. I hdr. stendur jöfnum, höndum eingi og einginn; þessum tvímyndum hef jeg haldið, þótt næst sje að halda, að skáldin hafi aðeins haft eingi, þvíað sú mynd kemur ein firir í hendíngum; báði L. IV 11 er svo í hdr. - Jeg hef alstaðar ritað þótt-, þætt-, sótt- sætt- (af þikkja aldrei þikja - og sækja), þótt þókt- og sókt- sýnist hafa verið haft, sjá G. II 60, enda er og svo stundum ritað, t. d. soktu L. I 3, og væri vel athuganda, hvort svo ætti ekki yfir höfuð að rita; þurt (f. þurft) stendur í hendíngum G. III 19. - Forsetn. »fyrir« er oftast skammstöfuð í hdr. og því erfitt að sjá, hvernig skáldin hafa haft það orð; þó sýnist svo, sem stysta myndin fyr sje höfð sem í fornu máli sem aðalleg forsetníng, en fyri (sem hjer er ritað, eða fyrir) sem atviksorð, - og hefur þeirri reglu verið fylgt hjer. (Þ. II 5,3 á líklega að lesa: stendur honum fyr). Líkt er með und og undir, nema hvað rithátturinn er skýrari í hdr.; hjer er gerður sami munur og ritað und, þótt undir standi í hdr., þar sem orðið er forsetníng. - Þess skal að síðustu getið, að ritað er í hendíngum t. d. lans, þótt ella sje ritað lands og þvíumlíkt, sömuleiðis -ur f. -r, þar sem bragarháttur þess. - »Hröngviðs«-nafnið er ritað margvíslega: hronguidr (hrau-) G. I 31, 58, hranguidr G. I 32 (hro- í 156), 34 (sömuleiðis), 43, 46, 55, hrungadz G. I 54, II 12, hrangid G. IV 50, 54, en hrangad- í G. I 41, 49, 60, 62, II 8, 10, 17, og það er eflaust þessi mynd, sem skáldið hefur þekt og notað (sjá einkum G. II 8).
   Einstöku orð, sem annars koma ekki firir í ísl., eru: gessinn (af gassi L. II 34, fleyðrar (af fleyðr, kvennkyns io-stofn; bjálki í húsi) L. II 23; kexar G. I 22 (óvirðulegt orð) af kexi, eflaust sama sem kakse á norsku (sórbóndi, en haft stundum í skopi). fexti G. IV 43 þekki jeg ekki, ef festi er ekki hjer upphaflegt og hendíngar ónákvæmar. Loks má telja ljóna (= leyna) V. V 22, L. IV 11.
   Á stöku stöðum eru hendíngar ónákvæmar (L. II 17, 27, 28, G. I 45, III 39, VI 48 - herr: hér, smbr. að framan), og á örfáum stöðum sama orð haft í 2 hendíngum (L. IV 15, V. III 25), og kann vera, að slíkt stafi ekki frá skáldunum sjálfum. - sm og sp, st og sl er rímað hvað við annað L. III 7, V. I 4. - Níu og búinn er ╩ ╥ en ekki ╦ ╥ Þ. I 25, L.III 3. Annars er lítið við bragarhátt að athuga auk þess sem áður var sagt. Stutt samstafa f. lánga (╦ x f. ╩ x) finnst örsjaldan,t. d. L. II 7, 18 (les: yðvar), 20 (les: hvað er eg?), III 5, smbr. Þ. I 25; III 22; G. I 34, IV 6, V 22, 41 (les: fal hun?).

Að svo mæltu bið jeg afsökunar á því, að jeg hef ekki getað haft þenna formála ríkulegar úti látinn, um leið og jeg þakka deild hins íslenska Bókmentafjelags í Höfn firir að hafa keypt kver þetta, eins og það er prentað.

Khöfn, í tvímánuði 1896.

Finnur Jónsson.


Athugasemdir:

1) Sögunnar um Hrómund, haugbrot Þráins og Hröngvið víking er þegar getið á öndverðri 12. öld (Sturl. I 19).
2) Þar sem Jón Þorkelsson í "Digtningen på Island osfrv. segir, að brot af rímunum sje til í 603, 4º, er það ekki rjett. Þar er ekki einn stafur til nú af þeim. - Í aths. er með "J.Þork." vísað til nefndrar bókar.
3) Vitulis f. vituli hef jeg af ásettu ráði ekki viljað breyta eða leiðrjetta.
4) Ritháttur rímnaskrifaranna gefur rammskakka hugmynd um mál höfundanna og er því til lítils að prenta þrælrjett eftir hdr.
5) h er slept á undan r (Rómund G. II 56) og l (Lær G. V 13, en slíkt er leyfi.