Hvar eru Eddukvæðin til orðin?

Fra heimskringla.no
Hopp til navigering Hopp til søk
Velg språk Norrønt Islandsk Norsk Dansk Svensk Færøysk
Denne teksten finnes på følgende språk ► Islandsk.gif


Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags
16. árgangur s. 1-41
Reykjavík 1895


Hvar eru Eddukvæðin til orðin?

eftir Finn Jónsson


Dr. Björn M. Ólsen (1) hefur í fyrra árgángi tímarits þessa, bls. 1-133, birt ritgjörð með þeim titli, sem hjer stendur fyrir ofan þessa grein; þessari ritgjörð er allri beint móti fyrra helmíngi bókar minnar á dönsku um fornnorskar og forníslenskar bókmentir, 1. bindi. BMÓ leitast við að sanna, að skoðanir mínar á heimili Eddukvæðanna, sem svo eru kölluð, sjeu ekki nógsamlega rökum studdar.
   Jeg er, BMÓ mjög þakklátur, í fysta lagi fyrir það, hvað fljótt hann hefur orðið við að rannsaka bók mína og ritað móti því, sem honum hefur fundist þörf að hrekja og mótmæla; vísindi og vísindalegar rannsóknir eru í hverju máli nauðsynlegar með öllu; líf þeirra, framsókn og framfarir er einmitt komið undir því, að menn greini á, að menn deili, eða að menn ræði fram og aftur um málefnin og helst i bróðemi, en með fullri alvöru og svo, að maður haldi til fulls við hvern sem er; svo vildi jeg helst hafa orðað það. Aldrei hefur mjer dottið í hug, að mínar skoðanir væru algildar og ómótmælanlegar, einkum þegar um það mál er að gera, sem hjer um ræðir; og jeg þekki altof vel þær mörgu og mismunandi skoðanir, sem bæði fyr og síðar og alt fram á þenna dag hafa verið í ljós látnar, til þess að jeg geti ætlað, að jeg hafi kljáð út um málið, að um það sje ekkert framar að segja. Það verður líklega svo, - og vildi jeg þó helst geta spáð öðru og betra -, að gras verði laungu gróið yfir höfuðsvörðum okkar BMÓ, áður en það mál, sem við báðir erum nú að ræða og reyna að skýra hvor fyrir öðrum og fyrir öllum þeim, sem á okkur vilja hlusta og vorum orðum gaum gefa, verði með öllu á enda kljáð. Eftir því sem ummálsefnið er vaxið, má það vera okkur ærin ánægja, ef orð okkar stuðla að því að skýra það, hvort sem leikslokin verða mjer eða mótsöðumanni mínum í vil.
   Í öðru lagi þakka jeg BMÓ fyrir það, hve laus ritgjörð hans er við persónulega áreitni og hógværlega og vísindamannslega rituð. Enda var slíkur ritháttur líka eina skilyrðið fyrir því, að jeg leiddi ekki hest minn frá því að eiga umræðu við hann eða hvern annan, sem vera skyldi; þegar um vísindaleg málefni er að ræða, eiga andlegar barsmíðar og brígslyrði og alt þar fram eftir götunum sjer eingan stað; í stað þess að gagna gerir slíkt ekki annað en spilla fyrir; ef slíkri aðferð er beitt við mig, fer jeg mina leið i burt. Öll ritgjörð BMÓ sýnir, að honum er mest um málið að gera, og hann hefði þess vegna eingan veginn þurft að taka það sjerstaklega fram (á bls. 3), að hann vilji að eins hafa »sannleikann að leiðarstjörnu«; þetta er reyndar ekki rjett að orði komist; það er ekki »sann-leikurinn«, sem er »leiðarstjarna« okkar; það er hann, sem við erum báðir að 1eita að, en hitt er satt, að það er ástin til sannleikans, sem efalaust er leiðarstjarna BMÓ, jafnt hans sem mín; ef hvorugum okkar hlotnast að finna hann og okkur getur ekki komið saman, þá er það af því, að það eru ósjálfráð öfl, sem beina leiðarstjörnum okkar sinni í hvora áttina; við það ráðum við ekki.
   Um leið og jeg lýk þessu lofsorði á ritgjörð BMÓ, get jeg þó ekki bundist þess - úr því að jeg er nú við »persónulegheitin« og best er illu aflokið, segja menn - að vísa með öllu frá mjer því ráði, sem BMÓ gefur mjer í niðurlagi ritgjörðar sinnar (bls. 127); því get jeg ekki tekið, og jeg get heldur ekki viðurkent, að BMÓ hafi nokkura ástæðu eða heimild til að komast svo að orði, sem hann gerir þar; þótt hann sje mjer ósamþykkur í smáu sem stóru, og þótt hann aldrei nema hefði getað hrakið skoðun mína, gefur það honum enga heimild til að hafa þau umyrði; ef hann hefði vitað, hve oft jeg hef hugsað þetta mál, heimili Eddukvæðanna, og hve oft allar þar að lútandi rannsóknir hafa farið fram, get jeg ímyndað mjer, að hann hefði kynokað sjer að viðhafa annað eins orðatiltæki og að jeg hafl »kastað fram« þeim og þeim kenníngum. Þó að honum finnist þær »illa rökstuddar«, þarf það ekki að koma til af því, að jeg hafi »ekki melt« skoðanir mínar. Mjer er óhætt að segja, að þótt jeg hefði ekkert gert annað 10 árin til en hugsa og rannsaka þetta mál, hefði bók mín vart orðið öðruvísi. Jeg hef fengið hvað eftir annað tækifæri til að taka upp rannsóknir mínar af nýju í fyrirlestrum mínum og á annan veg, og því meira sem jeg fæst við Eddukvæðin, hvort sem heldur er í heild sinni eða sjerstaklega hvert fyrir sig, styrkist jeg altaf meira og meira í því, sem jeg hef komist að, og er nú fremur en nokkuru sinni sannfærður um, að jeg hafi á rjettu máli að standa um heimili þeirra og uppruna. BMÓ heimtar, að jeg megi ekki láta í ljósi skoðanir mínar, nema »þær sjeu óyggjandi« (2). Heldur BMÓ virkilega,. að hans skoðanir sjeu »óyggjandi«?; jeg ætla aðeins að benda á, að próf. Bugge hefur sagst fyrir skömmu ætla að sýna, að Eddukvæðin sjeu til orðin á Vesturlöndum (eyjunum, Írlandi) og munu honum þá valla þykja skoðanir BMÓ »óyggjandi«; þar að auki veit BMÓ vel, að hjer geta ekki feingist óyggjandi röksemdir, hvorki með nje móti. Hvað ætli leiddi af því, ef einginn mætti segja neitt eða skrifa, nema það sem væri svo? BMÓ hefur ritað bók um rúnirnar á íslandi; jeg er honum varla samþykkur um nokkurt orð í þeirri bók, og þó er jeg glaður yfir því, að sú bók var prentuð; sama máli er að gegna um ritgjörð hans um Ara fróða og þátt hans um Kristnisögu o. fl. og vildi jeg þó ekki, að sú grein væri óprentuð (3).
   Annað atriði vildi jeg nú þegar taka fram. Bls. 51 í 3. grein neðanmáls segir BMÓ, að tímatafla mín sje »mestöll . . ekki annað en handahófsreikningur og hugsmíð höfundarins«. Þessi orð eru mjer með öllu óskiljandi; taflan er saklaus og sett að eins til ljettis fyrir lesendurna, hún er blátt áfram útdráttur úr því, sem segir við hvert kvæði um aldur þess. Að það sje ekki alt »óyggjandi«, sem jeg þykist geta sagt eða ráðið um aldur hvers kvæðis, hef jeg aldregi lagt dul á; það er sumt af þvi, eins og við er að búast, byggt á samanburði við önnur kvæði og mart dregið til, sem BMÓ kann að þykja lítils virði, en tóman handahófsreikning og hugsmíð hefur einginn leyfi til að kalla það; þessi tafla er annars eitthvað það síðasta, sem ritað var af öllu fysta bindinu. Það var alt fullbúið til prentunar, áður en fysta síðan var prentletruð.
   Jeg er nú búinn með »persónulegheitin« og sný mjer nú að því, sem er og á að vera mergurinn málsins og meiníngin orðanna.
   Fyst af öllu verð jeg að geta þess, að jeg get «ekki hjer farið út í alt, sem BMÓ tekur fram, það yrði of þreytandi fyrir lesendurna og of upptuggulegt; enda þarf þess heldur ekki; jeg get falið mjög mart í vörn minni með því blátt áfram að skýra frá þeirri aðferð, sem jeg hef fylgt í rannsókn minni um heimili Eddukvæðanna.

Fyrir 20-30 árum var háð allmikil rimma um aldur og heimili Eddukvæðanna; það þekkir BMÓ eins vel og jeg. Mönnum kom ekki saman; bæði Danir og Norðmenn, Svíar og Þjóðverjar lögðu orð i belg. Því verður ekki neitað, að sumir af þeim, sem rituðu þá, fóru helsti mikið eftir tilfinníngum sínum og því, sem þeir vi1du að væri eða hefði verið; þeir komu því ekki fram sem óhlutdrægír dómarar, og málið hafði eiginlega ekki mikið gagn af því. Það var fyst nokkru seinna (um 1880), að málfræðin var komin svo lángt áleiðis, að hún gat sagt: »ekkert Eddukvæði getur verið eldra en um 800« (Bugge); en nú var mikið unnið, svo að segja annað deiluefnið upprætt. Jeg held jeg fari ekki með nein ósannindi, þótt jeg segi, að um hitt deiluefnið hafi flestir menn um sama leyti heldur hneigst að því, að Eddukvæðin hafi orðið til í Norvegi. Svo mikið er víst, að í formála fyrir bók, sem kom á prent 1884, er komist svo að orði (bls. II): »Að vísu hafa Íslendíngar í öllu verulegu að eins tekið við, geymt og skrifað upp Eddukvæðin« (4). Þessi orð eru ótvíræð, og sá sem skrifaði þau var dr. Björn Magnússon Olsen. Nú segir BMÓ (bls. 1), að sjer hafi »brugðið í brún« (5) við að sjá í hinni litlu bókm.sögu minni, að jeg teldi »flestöll Eddukvæðin .. ort í Noregi o. s. frv.«. Ágripið kom út 1890; á þessu 5-6 ára tímabili hefur þá BMÓ breytt skoðun sinni á heimili Eddukvæðanna svo gjörsamlega, sem hægt er; slik breytíng getur nú ekki hafa átt sjer stað án vandlegra rannsókna, og vildi jeg því hafa óskað, að BMÓ hefði birt á, prenti rannsóknir sínar, þótt litlar líkur sjeu til, að þær hefðu breytt til muna mínu áliti. En þvílík skoðanar-breytíng sýnir ásamt með öðru, hve erfitt alt þetta mál er viðureignar. Jeg þóttist hafa veður af þessum erfiðleikum, enda hafði jeg kynnt mjer nákvæmlega rit manna um þetta mál; þegar jeg svo fór að hugsa um að safna til og semja bókmentasöguna, hafði jeg engu að síður ekki leyft neinni skoðun að festa rót í huga mjer. Jeg var alveg óháður og mín einasta og fysta hugsun var sú að láta annara víti mjer að varnaði verða; »jeg vil rannsaka kvæðin sjálf, spyrja þau, svo að segja, sjálf um uppruna sinn, kryfja þau til mergjar og vita, hvort þau geta ekki sjálf gefið svar, er við megi hlíta« - svona hugsaði jeg. Einginn óhlutdrægur maður getur sagt annað en þetta sje rjett; geti kvæðin ekki sjálf gefið oss leiðbeiníngar, getur ekkert í veröldinni gert það.
   Það er nú sannleikur, sem er með öllu óhrekjandi og algildur, að ekkert er meira en skáldskapur rígbundið við þá þjóð og það land, sem hann er upp runninn í. Í kvæðum kemur ósjálfrátt fram þjóðarandinn, hugsunarhátturinn, og fyst og fremst sú náttúra landsins, sem skáldið hefur haft fyrir augum, frá því hann var borinn, með öllum sínum skörpu einkennum. Jafnvel á vorum tímum, þar sem menn á einu hendíngskasti geta farið land úr landi, sjeð og heyrt svo mart útlent og óþekt, þar sem menn ennfremur geta feingið svo mart útlent inn í sig af blaða lestri og bóka, getur valla nokkurt skáld rifið sig svo upp úr sínum eigin jarðvegi og rætt upp hjá sjer þær hugmyndir af lífi því, sem hann er alinn upp við, að þeim bregði ekki fyrir alveg ósjálfrátt og honum jafnvel óafvitandi í öllum hans kveðskap. Einkum eru náttúrulýsingar eða þótt ekki sje nema nefnt á nafn eitthvað einkennilegt lángmerkilegast og óbrigðulast. Taki maður t. d. íslenskan skáldskap frá vorri öld og menn munu finna, að það er rjett, sem hjer er sagt. Jeg gæti fært til óteljandi dæmi frá flestum isl. skáldum, sem sýna, að það og það skáldið hlyti að vera fætt og fóstrað á íslandi. Einkennilegast er næstum því það, hvernig menn þýða, eða hvernig íslenskt landslag ryður sjer ósjálfrátt braut í hug skáldsins í stað þess útlenda. Jeg vil nefna eitt dæmi. Í Hefndinni eftir Runeberg (Kristjáns kvæði 46-47) stendur t. d.: grasi vafið engið er | ótal rósir blika. -Fagrar meyjar tóru að sjá | fríða sumardalinn osfrv. Hjer er alt íslenskt; en í frumkvæðinu stendur svo: och i sommarhetten häcken | står med matta rosor full. - Backens svala bölja lockat | alla nejdens flickor dit osfrv. Hjer er talað um girðíng (häcken) fulla af rósum eða sem rósir vaxi á. En skáldinu ísl. verður það ósjálfrátt að sleppa þessu, sem hann hefur aldrei sjeð líkamlegu auga, og setur þess í stað það sem hann þekkir svo vel: engið, völlinn með allskonar smáblómum (það merkja »rósir« á ísl.); «sumardalinn«, sem hann þekti líka svo vel, setur hann inn i kvæði sitt. Hjer er komið rammísl. landslag og hugsunarháttur í stað hins útlenda. Jeg gæti til fært mart fleira og sumt enn einkennilegra, en þess þarf ekki með. Hjer er um ekkert vafamál að gera. En ef þessu er nú svo varið á vorum tímum, hve miklu fremur hlaut ekki slíkt að eiga sjer stað á fyrri tímum? Hve miklu bundnari vóru menn þá ekki við staðinu, sem þeir vóru fæddir á, en nú?, þegar eingar járnbrautir, eingin blöð, eingar bækur vóru til. Líti menn á fornan skáldskap annara þjóða, og þarf enda ekki fornan til, verður það sama efst á baugi. Þótt mörgum kvæðum (t. d. indverskum, aröbskum, perskum, grískum, latínskum ofl.) væri ruglað saman í eina bók (í þýðíngum), þyrfti valla mikla sjerstaka kunnáttu til að skilja þau í flokka eftir uppruna sínum.
   Það er þessi meginsannleikur, sem jeg hef fylgt afdráttarlaust í dómum mínum um heimili Eddukvæðanna. Jeg hef tínt saman alt einkennilegt, sem mjer fanst geta komið til greina, og spurt: er þetta norskt eða ís1enskt (um annað en þetta tvent getur ekki verið að ræða; þar um erum við BMÓ samdóma). Svarið hefur nær ætíð verið: norskt. Það er segin-saga, að íslenskri náttúru, eða því sem er eða geti verið sjerstaklega íslenskt, bregður hvergi nokkurstaðar fyrir í neinu kvæði (6).
   Það er svo sem auðvitað, að þar kemur ýmislegt fram, sem getur verið og er bæði norskt og íslenskt; slíkt er með öllu þýðingarlaust við þær rannsóknir, sem hjer ræðir um, og verður að sleppa með öllu, og jeg held, að mjer hafi tekist að mestu eða öllu, að skilja alt slíkt frá. Sjerstaklega vil jeg nefna hjer til orðatiltæki og málsháttu, sem vitanlega geymast öld eftir öld, þótt það sje laungu liðið undir lok, sem þeir era runnir af; mjer dettur t. d. ekki í hug að skilja orðin: ok er mér fangs ván | af frekum ulfi (Reginsm. 13) svo sem þau votti norskan uppruna kvæðisins, og svo er um mart fleira. Því merkilegra tel jeg setningar allar og samlíkingar, sem eru beinlínis gripnar út úr náttúrunni: »sem skyli haltr henda | hrein í þáfjalli«; »sem fyr ulfi | óðar rynni | geitr af fjalli | geiskafullar«; »er á asklimum | ernir sitja»; »ok bjargskorar | brattar klífa, | hafa þér í hendi | heslikylftu«, og mart fleira, sem alt er norskt; sömuleiðis alt sem snertir sjerstaklega lifnaðarhætti og daglega siði og viðburði. Alt þess konar byggist á svo nákvæmri þekkingu á lífinu og náttúrunni í Norvegi, að skáldið hefur hlotið að vera hvorutveggju innlífað. Nú leiði jeg út af þessu, að sennilegast og eðli-1egast sje, að skáldið eða skáldin, sem sögðu þetta, hafi því að eins sagt það, að þau hafi þekt slíkt frá blautu barnsbeini, því aðeins hafi þau haft það á svo reiðum höndum til þess að setja það inn í kvæði sín og það jafnsnildarlega.
   Þar sem aungar óyggjandi sannanir eru að fá - og BMÓ getur ekki komið með eina einustu sönnun með nje móti, sem sje »matematísk« sönnun, hvernig sem hann fer að -, er jeg ekki í neinum vafa um, að hollast sje og áhættuminst að fara þá beinu braut, sem sennileiki og eðlilegleiki vísar á, og það er hún sem jeg hef þrætt.
   Í stað þess að fylgjast með mjer, finst mjer nú BMÓ fara alla hugsanlega krókastiga möguleg1eikanna, hvar sem hann getur. Alstaðar klingir við eitthvert »getur«, »gat«, »mætti«, »þetta þarf ekki að vera», »gæti vel« osfrv., og svo verður að taka til allra mögulegra skýríngartilrauna, til þess að hrekja mitt mál. Ágætt dæmi upp á þessa skýríngaríþrótt er á bls. 64; en það er ekki nema eitt af mörgu. Auðvitað verður aldrei með öllu komist hjá mögulegleikum og getgátum, en því má aldrei gleyma, að vísindalegt gildi þeirra er harðla lítið, þótt þeir geti stundum orðið að nokkuru gagni.
   Eftir skoðunum BMÓ verður nú hvert kvæði, þar sem eitthvað norskt hittist í - og þau eru mörg eða flest - endilega að vera ort af íslendíngi, sem hefur dvalið í Noregi og sjeð eða heyrt alt það, sem er norskt í kvæðinu - en það sjá allir þegar í stað, hve hæpin og óvísindaleg þesskonar hugmynd er; enn þá hæpnari og furðulegri verður hún þó, þegar á hana fellur bjarminn frá þeirri vissu, að ekkert sjerstaklega ís1enskt kemur nokkurstaðar fram; hvernig er það t. d. skiljanlegt, að refurinn - þetta eina rándýr og skaðræðisdýr á Íslandi - skuli hvergi koma fram, beinlínis nje óbeinlínis?. Það vill nú svo vel til, að það er beinlínis hægt að sanna, hve þesskonar skýríngar-tilraunir eru hæpnar og mögulegleika-vegirnir glæfralegir. I einu Eddukvæðinu eru sagðir ýmsir draumar, er konur dreymdi; eina dreymir, að »björn er inn kominn, bryti upp stokka, hristi svá hramma, at vér hrædd yrðim« osfrv.; þessi draumur er ráðinn svo, að björninn - sem er hvítabjörn (»hvítabjörn hugðir») - merki »hregg austan«; þótt ekkert væri annað að styðjast við en þetta, mundi jeg samkvæmt aðferð minni ekki geta ráðið annað, en þetta kvæði væri ort á Grænlandi; hvergi nema þar gat hugmyndin um hvítabjörnu verið svo ljós og hræðslan við þá svo hjartanleg, að hvortveggja gæti vakið drauma hjá mönnum. Enn greinilegri vottur um upprunann er orðið austan; koma hvítabjarnarins er þýdd móti komu austan-vinds; þar sem draumurinn og kvæðið varð til, komu þá þessir birnir »að austan«. Þá sjaldan að hvítabirnir hafa brakist á ísum til Íslands hafa allir vitað, að þeir komu norðan og norðvestan eða úr þveröfugri átt við þá, sem kvæðið getur um. Að eins á Grænlandi, þar sem Íslendingar höfðu sest að (helst Eystri byggð), er þetta orðatiltæki rjett og eðlilegt. Það tekur því öll tvímæli af. Auk þess er ýmislegt fleira, sem bendir á grænlenskan uppruna í kvæði þessu. Samt sem áður er jeg sannfærður um, að BMÓ hefði hjer getað komið með einhverja »mögulegleika«, og ef hann hefði ekki gert það, hefðu aðrir orðið til þess; enda hef jeg upplifað þá ánægju að heyra merkorðan mann vilja verja það, að kvæðið gæti verið íslenskt alt um það, og hann ljet í ljósi ýmsar mögulegleika. skýríngar-tilraunir; en nú vill svo til, að þetta kvæði er kallað »Atlamál en grœnlerizku« á tveimur stöðum í handritinu (codex regius; í lesmálslínu á eftir Atlakviðu og í titli kvæðisins sjálfs). Af því svo er, er hjer eingin músarhola, sem mögulegleikar geti skotist inn í, og maðurinn, sem jeg átti áðan við, játaði og, að þess vegna væri kvæðið sjálfsagt grænlenskt. En það sjá allir, hve miklu áreiðanlegri og hættuminni mín aðferð er en hin, sem BMÓ hyllir og þeir, sem hans flokk fylla. Einmitt þetta kvæði, þetta dæmi sýnir það deginum ljósara. Samkvæmt þessu tel jeg víst, (svo að jeg láti mjer lynda, að taka að eins tvö dæmi), að t. a. m. vísuhelmíngurinn, sem jeg gat um áðan:

sem fyr ulfi
óðar rynni
geitr af fjalli
geiskafullar

bendi á, að hann (og þar með kvæðið sem hann stendur i) sje ortur af norskum manni; samlíkíngin er hjer svo ágæt, svo vel tilfundin og svo ljós-lifandi gripin út úr norskri tilveru, sem frekast má verða. Það er ekki til neins að vitna til þess, að Íslendíngar hafi þekt orðið úlfur, vitað að úlfur var rándýr, þekt geitur og haft þær sem húsdýr að nokkurum mun (7) (sem jeg hef aldrei neitað); menn setja ekki saman jafngóðar samlíkíngar sem þetta af orðum tómum. Og hver sem segir að íslendíng-ur hafl ort það, verður neyddur til að láta skáldið bregða sjer til Noregs, koma þar á eínhvern viss-an blett og hitta svo vel á, að hann einmitt sjái þetta! Jeg skal geta þess í sambandi við þetta, að í einni ísl. sögu finst þessi sama samlíkíng notuð (líklega tekin eftir þessum stað í kvæðinu) í vísu (Örvar-Oddss.), og hljóðar þar svo:

sem fyr úlfi
örg geit rynni.

Hve óendanlega lángt stendur ekki þetta á baki hinni vísunni að fjöri og ljósri náttúrutilfinníngu. Hið fyrra er sjeð með eigin augum, hið síðara er árángur lesturs og lærdóms, og er því dauft og merglaust með öllu.
   Hitt dæmið er:

Fyrr muntu Goðmundr
geitr of halda
ok bjargskorar
brattar klífa,
hafa þér í hendi
heslikylfu.

Það sem er einkennilegast hjer, er hesli-kylfan; ef hún hefði ekki fullkomnað myndina og lýsinguna, hefði jeg ekki getað sagt, hvort vísan var norsk eða íslensk með vissu; en hes1i kylfan tekur af skarið. Hvernig stendur á því, að íslending gat dottið í hug að nefna hjer »hesli«-kylfu, sem hlaut að liggja alveg fjarri hans hugsunum og því sem hann hafði vanist. Og þótt íslenska skáldið hefði nú verið svo heppið að koma einmitt á þann stað, sem einmitt var geitahirðir að klifrast upp bergskor og - ekki að gleyma - með staf í hendi; hvernig gat hann þá vitað, að hann var úr hesli? Jú, það er svo sem auðvitað; hann hefur klifrast upp skorina á eftir stráknum, spurt hann að heiti osfrv.; loks hefur hann sagt: »úr hverju er nú kylfan þín, lagsmaður?« »Hún er úr hasli, mörlandi, ef þú vilt vita það«! Og svo er nú það. Mjer dettur ekki í hug að neita, að þetta eða þvíumlíkt sje mögulegt, en sennilegt?, nei, ekki á nokkurn hátt. Einmitt þetta lítilræði sýnir, að skáldið er svo samrýmt við norskar siðvenjur og lifnaðarhátt í smáu sem stóru, að það er með öllu ólíklegt, að íslendíngur, þótt dvalið hefði nokkurn tíma í Noregi, hefði haft svo »smásmugul« augu, að hann tæki eftir þessu, einkum þegar þess er gætt, hvar íslendíngar, sem komu til Noregs, hötðust jafnaðarlegast við.
   Jeg fer ekki frekar út í alt það, sem hjer mætti til tína; það yrði ekki annað en upptugga á því sama. Jeg held því föstu, samkvæmt þessu, að min aðferð sje áreiðanlegust og áhættuminst, og henni hef jeg fram fylgt í allri minni skoðun. Aðferð BMÓ er, sem reynslan sannar, mjög víðsjál og krókótt og i því fólgin að finna og »útspekúlera« alla mögulegleika og tilraunir til að skýra hlutina á alt annan hátt en beinast liggur fyrir hendi. Af þessu kemur sá ágreiníngur, sem er milli BMÓ og mín, ekki að eins i þessu máli, heldur og ýmsum atriðum öðrum.
   Með þessum orðum gæti nú í rauninni vörn minni verið lokið og jeg lagt málíð í dóm, en af því að BMÓ hefur farið svo mjög út í einstök atriði, (sem jeg er honum mjög þakklátur fyrir), get jeg ekki bundist þess, að taka nokkur af þeim fyrir til athugunar. Það yrði altof laung rolla og leiðinleg, ef jeg færi að tína upp hvert smáræði, enda sje jeg þess aungva þörf, og þótt einhverjum finnist, sem jeg hefði átt að svara því og því, sem jeg læt hjá líða, er það ekki af því, að jeg þegjandi viðurkenni, að BMÓ hafi á rjettu máli að standa, eða að ekki megi andmæla honum og vefengja.
   BMÓ skiftir »ástæðum« mínum í tvent, eftir því hvort þær eru »almenns eðlis« eða »sjerstaklegs eðlis« (s. 5) og tekur fyst fyrir til athugunar þær, er fyr eru nefndar (bls. 5-29).
   Það er til lítils að fara frekara út í þær; það, er þar er um að ræða, er þess konar, að um það má deila til eilífðar; BMÓ kemur t. d. ekki með neitt, er geti hrakið mínar skoðanir á þeim mun, sem hafi verið á Norðmönnum sjálfum og Íslendíngum á 10. öld. Mart verður að vera falið undir dómi sögufræðínganna, og við hann er jeg alls óhræddur. Þessar »almennu ástæður« mínar eiga að styrkja og einkum skýra, að kvæðin sje ekki íslensk í heild sinni, ef þau eru svo gömul, að þau sjeu frá þeim tíma hjer um bil, sem jeg ætla þau sje. Ef ekkert væri annað að halda sjer við, en þær, væri það hæpið að niðurstaða mín væri rjett; það er því auðvitað, að hinar »sjerstöku« ástæður mínar eru i mínum augum gildari og áhrifabetri, og mart af þeim álít jeg svo óyggjandi sem auðið er. (Smbr. það sem að ofan er sagt).
   Það sem maður þekkir til lífsins á Íslandi frá tímabilinu c. 874-c. 1030 finst alt í sögunum (ættasögunum, íslendíngasögum); um þetta líf, eins og það kemur þar fyrir, geta ekki verið tvískiptar skoðanir; annað mál er það, hvort sú mynd af lífinu, sem þar sjest, sje með öllu rjett. Jeg veit nú ekki betur, en að við BMÓ sjeum nokkurn veginn á sama máli um, að sú mynd sje mjög nærri sanni. Það er að minsta kosti eingin önnur til. Ef nú þessi mynd er ekki þýðíngarlaus með öllu og ef nokkuð má af henni ráða, get jeg með aungu móti fundið þar neitt hvorki í orði nje verki, sem sýni, að það sje líklegt eða ekki ósennilegt, að önnur eins kvæði og goðakvæðin hafi orðið þar til. Slíkur skáldskapur verður ekki til af sjálfum sjer; það verða að liggja drög til hans annaðhvort í anda mannsins (trúnni) eða sögu þjóðarinnar; hvorugt finn jeg á Íslandi, en hvortveggja í Norvegi. BMÓ hefur skýrt frá mínum skoðunum (s. 5-7) og get jeg vísað til þess, þótt framsetníngin sje ærið stutt, eins og nærri má geta. Það sem BMÓ telur upp á bls. 7-11 er ærið þýðíngarlaust í þessu máli og mart af því sem þar stendur hef jeg sjálfur sagt; en það er rjett sem jeg segi, að höfðíngjakvæði, hirð skáldskapur Íslendínga hefst ekki fyr en um 950; Egill var aldrei hirðskáld. (8)
   BMÓ segir, að þjóðir, sem hafi verið »hneptar í dróma«, sje ekki vanar að yrkja fögur ljóð, og á hann við Norðmenn, eftir að Haraldur var búinn að vinna Noreg og svifta bændur óðalsrjetti sinum, auk þess sem »allir hinír bestu menn hafi verið flúnir úr landi eða beygt sig undir ok Haralds«, og að skáldin sjeu lík saungfuglunum osfrv. Öllu þessu verð jeg alveg að mótmæla. Ok Haralds konúngs var ekki og varð aldrei svo mikið, að hver og einn einstakur maður væri ekki eins fullkomlega persónulega frjáls, sem áður. Það er og svo gott að vita, að Haraldur virti aunga menn jafnmikils sem ská1d sín; skyldi það eftirdæmi hafa verið til hnekkis fyrir norskan skáldskap? Auðvitað flýðu margir stórbokkar land, en á hinu er heldur einginn vafl, að það varð eftir í Noregi allur fjöldinn af landslýðnum; það vóru að eins einstök hjeruð sem svo mart fór úr, að á því bæri, og úr mjóg mörgum hjeruðum Noregs kom næsta fátt eða ekkert til Íslands. Þetta skáldskapar-hnekkis-ok BMÓ er alveg gripið úr lausu loftinu. Það voru aungvir hneptir svo í dróma, að þeir gætu ekki súngið, eingvir saungfuglar i búri. - Þar að auki sýngja saungfuglar opt, þótt í búri sje, það er svo gott að vita.
   Með því að taka fram friðartímana á dögum þeirra Haralds og Hákonar feðga, hef jeg að eins viljað benda á, að skilyrðin fyrir tilorðníngu Edduskáldskaparins, eins og hann heimtar þau eftir minni skoðun, sje til - í Noregi.
   Að heiðin trú hafi verið veik hjá Íslendíngum á 10. öld, - því held jeg fastlega fram, og að skynsemistrú eða trúarleysi hafi verið allríkust, er víst; að kristnin festi þar ekki rætur, þótt einstöku landsnámsmenn væru kristnir, heldur hvarf fijótlega og dó út, sýnir ekki krapt heiðninnar, heldur að þessir kristnu menn gerðu ekkert til þess að breiða hana út og lifðu út af fyrir sig, en allur hinn þorri landsmanna hjelt af vanafestu við heiðnina, að svo miklu leyti sem þeir voru ekki trúarlausir með öllu. Að einstöku menn hafl verið stækir trúmenn, neita jeg ekki. Jeg hef haldið því fram, að kristnisagan íslenska sýni best, hvernig ástatt var með trúna yfir höfuð að tala, og tek jeg ekkert af því aftur, sem jeg hef sagt um það. Jeg hef bent á í bók minni, hvernig á stóð á Íslandi og í Noregi. í Noregi var annar eins konúngur og Ólafur Tryggvason, allra manna harðráðastur, grimmastur og refsíngasamastur, þegar því var að skifta; hann bauð trúna og hafði her manns að styðjast við - og þó gerðu Þrændir aðra eins mótstöðu, sem kunnugt er, uns þeir vóru kúgaðir af ofureflinu. Á Íslandi eru tveir flokkar, jafnvel búnir að kostum og hæfilegleikum, og heiðíngjaflokkurinn, eins og nærri má geta, eingu færri að tölu; forsprakkar þeirra vóru í raun og veru aungvu verri en hinna kristnu, en það vóru, eins og BMÓ segir með rjettu, »einhverjir hinir helstu höfðíngjar landsins«; hinn eini »embættismaðurinn«, lögsögumaðurinn, var algjörlega valdslaus. Nú skyldu menn þá ætla, að sá flokkurinn, sem auðvitað var fjölmennastur í landinu, hefði ekki látið minna hlutann komast við veðri, hefði aldrei þolað annan eins yfirgáng og láta sig svifta »því helgasta«, sem hann átti til, ef hann hefði kært sig um það? En hvað skeður? Fjölmennasti og ríkasti flokkurinn skuldbindur sig fyrir fram til að hlíta eins manns úrskurði; þessi maður »úrskurðar«, að a1t landið skuli vera kristið og fer um það alvarlegum, en alveg trúarhitalausum skynsemisorðum, sem sjálfsagt hafa ekki verið áhrifalaus. Heiðíngjarnir þóttust auðvitað illa sviknir í svipinn, en eingum datt í hug að sýna verulegan mótþróa. Svo framarlega sem maður vill ekki fara neina krókvegi, getur ekkert verið ljósara en þessi atburður og það þarf eingar kaffarir niður í djúp sögunnar eða mannlegs anda, til þess að sjá, hversu við víkur. (9) Trúin var almennt orðin veik eða týnd, sannfæríngin alment hálfsofnuð. Og þetta ástand finst mjer vera móti því, að goðakvæðin sjeu ort á íslandi í heiðni.
   BMÓ fer, eins og reyndar mörgum öðrum svo, að álíta, að hann hafi sannað sitt mál og ósannað mitt, mótstöðumannsins; hann segist hafa »sýnt fram á«, að mínar almennu ástæður sjeu »í raun og veru einskis virði« (s. 29-30). En hann hefur ekki »sýnt fram á« neitt; hann hefur reynt til þess og meira ekki, og þegar svo þessi ti1raun er styrkt með lángri tilgátu (um goðana), sjá allir, að andmæli BMÓ geta ekki veikt mínar almennu skoðanir, hvort sem þær eru nú alveg óbilandi eða ekki; þær standa óhaggaðar fyrir þessari árás.
   Nú koma sjerstöku sannanirnar.
   Og þá er fyrst málið á Eddukvæðunum (s. 30-46).
   Jeg hef sjálfur sagt, að lítið mætti af málinu ráða um heimili Eddukvæðanna, vegna þess að málið hefði hlotið að vera svo líkt á Íslandi og í Noregi um þær mundir, sem þau voru ort.
   Móti þessu segir BMÓ, að málið sje »á þeim öllum frá upphafi til enda rammíslensk« og að þetta sje »einhver hin sterkasta sönnun fyrir því að kvæðin í þeirri mynd, sem þau nú hafa, sjeu íslensk«. Jeg ætlaði valla að trúa mínum eigin augum, þegar jeg las þessi orð, ekki af því að jeg vilji neyta, að málið geti verið »rammíslenskt« í raun og veru, heldur af því, að BMÓ setur þessa »rammíslensku«, sem hann svo kallar, móti því, sem þá ætti að vera norskt eða rammnorskt. Þessi mótsetníng er nú ekki til, að minsta kosti vita menn alls ekkert um hana. Ef megnið af kvæðunum er ort á 10. öld - og það hljóta þau velflest að vera - þá leiðir það af sjálfu sjer, að málið á þeim er jafn-rammnorskt sem íslenskt; svo snemma gat einginn munur, sem teljandi sje, hafa verið til orðinn. Það er fullkomin alvara mín, að málið í hei1d sinni geti ekki sýnt oss á nokkurn hátt með nokkurri vissu, hvort kvæðin eru til orðin í Noregi eða á íslandi. Norska málið á 10. öld þekkjum við - að fráskildum Eddukvæðunum - að eins at kvæðum nokkurra norrænna nafngreindra skálda, og mjer er óhætt að mana minn heiðraða mótstöðumann til að sýna mjer og öðrum, hvað sje rammnorskt í þeim kvæðum, og sem ekki líka geti verið rammís1enskt. En hitt væri hugsanlegt, þrátt fyrir það, sem hjer er sagt, að einstaka orði eða orðatiltæki brygði fyrir, sem sjerstaklega benti á uppruna sinn - og það hef jeg líka þóst finna í grænlenska kvæðinu (Atlamálum) er orðið hy1da haft um aðskera mann upp (hjartað úr manni); svo hefur orðið a1drei verið haft í Noregi eða Íslandi; en hjer hefur merking orðsins víkkað í grænlenskunni, og er vel skiljanlegt, hvernig á því stendur. Hjer er þá bein sönnun fyrir því, að slík orð sjeu til. Jeg skoða og orðið eikju, sem merkir ferjupramma úr eik (eintrjáníng), sem vott um norskan uppruna þess kvæðis, er það orð stendur í; þess konar eikjur voru ekki til á Íslandi, og hvers vegna skyldi Íslenskt skáld hafa farið eða dottið í hug að hafa það í kvæði, þegar ekkert rak hann til þess, ekki einu sinni hljóðstafirnir, og um mörg orð annars var að velja. Það sem BMÓ segir um stund er til stokksins (í sama kvæði sem hitt, Hárb.lj.), þá er það byggt á misskilníngi á mínum orðum. Jeg á ekki við orðið stund, þegar jeg tala um (bls. 62) vegaleingd, sem sje norsk; jeg á náttúrlega við það sem miðað er við, þ. e. orðin til stokksins, og sýni BMÓ mjer, hvar hún kemur fyrir í íslensku; þar á móti getur ekkert verið náttúrlegra en það í Noregi. Um jafnendr hef jeg talað varkárlega (»ja, måske også« osfrv.) og þar með talið orðið óáreiðanlegt sem sönnun. Jeg verð að segja, að jeg yfir höfuð að tala hef verið mjög varkár með að leiða einstök orð fram til styrkíngar mínu máli - eins og bók min sýnir -; jeg hef rekið mig sjálfur á, hvað slíkt getur verið hæpið; og skal jeg færa til eitt, dæmi. Orðið kópa kemur fyrir í Hávamálum og finst í norsku bændamáli enn þann dag í dag; í ísl. bókum finst orðið hvergi, hvorki fyr nje síðar. En í seðlum Árna Magnússonar hef jeg fundið vott um orðið á Íslandi. Hann segir: »Kóper otiose contuetur aliqvid nulla observatione dignum (Danice: gaber). Þetta orð sagði Þórdís Jónsdóttir, að Sölvör Vigfúsdóttir hefði brúkað«. Að þetta eigi við full rök að styðjast er óefað. Þetta og annað eins hef-ur kent mjer að vera varkárum (10). En það er öðru máli að gegna um orð, sem eru nöfn á sjerstökum hlutum, gripum, amboðum eða þjóðlítseinkennum; þau hafa þó töluverða þýðíngu. Nú er hjer aftur svo undarlega máli varið, - undarlega segi jeg, ef kvæðin væru íslensk -, að það sem hægt er að tína til af sjerstak1egu, það er norskt (jafnendr má fyrir mjer hverfa úr þeim hóp og það sem því er líkt að óvissu), en það kemur ekkert, alls ekkert fyrir sjerstaklega íslenskt, sem ekki geti líka verið norskt. Og þá rekur aftur að hinu sama -blessuðum skýríngartilraununum.
   BMÓ tilfærir móti mjer, að bæði eikja og eikjukarfi komi fyrir í Sverriss., Ólafss. helga (tveimur) og í Snorra-Eddu (þulum) og segir: »Eftir því ættu öll þessi rit að vera norsk!«, - sem þau vitanlega eru ekki. En þessi ályktun, sem á að vera i mínum anda, er með öllu raung. Að ísl. höfundar noti norsk orð á norskum hlutum, þegar þeir eru að segja frá þeim, er í sannleik ekki merkilegt, heldur sjálfsagt; en það er sitt hvað og allt annað en að hafa þesskonar orð í kvæðum, þar sem alls ekki er verið að lýsa eða tala um sjerstaklega norska viðburði. Þessu tvennu verður að stía í sundur, en ekki rugla saman.
   Annars eru þessir sannanastaðir BMÓ mjer mjög kærkomnir; þeir sýna - einmitt í mínum anda -, að orðin eru hvergi höfð i ísl. ritum um ís1enskar ferjur; ef svo hefði verið, hefðu þau getað orðið mjer bagaleg; nú vitna þau með mjer (11).
   Þau orð sem BMÓ tínir upp s. 37 osfrv. er alveg óþörf málaleingíng. Það er svo sem auðvitað, að þau eru líka norsk, þótt þau komi ekki fyrir í norsku, og eftir því sem jeg hef nú skýrt málstað minn (í samræmi við bókm.sögu mína), fara þær athugasemdir BMÓ fyrir ofan garð og neðan hjá mjer, þ. e. hitta mig hvergi. Um laukr skal þess að eins getið, að það er alls ekki sagt, að það orð þýði jurtir alment í Völuspá, þótt það sje alment þýtt svo; það er líklegast næst að skilja það um sjálfan laukinn, þótt það kunni að vera nefnt sem pars pro toto; sýjur er t. a. m. haft um skipið alt i vísum, en þó merkir sýjur ekki skip, og mart fleira mætti til tína af sama tagi.
   Að lyktum gerir BMÓ nokkrar athugasemdir um v á undan r. Eins og orð mín sýna (Bókm.s. 56), hef jeg að eins drepið á þetta atriði lítillega neðan máls; í meginmálinu hef jeg notað það, að v yfir höfuð er fallið burt, til að sanna, að kvæðin sje norsk eða ís1ensk (ekki dönsk eða sænsk), og erum við BMÓ þar víst alveg sammála. Hinu skal jeg ekki leyna, að af þeim fáu dæmum, sem til eru, uppá v á undan r, finst mjer eðlilegast að álíta, að v hafi verið deyjandi eða dáið út á Íslandi á 10. öld, og að vreiðr og vrungu (vröngu) hjá Eilífi og Eigli sje norrænulán. En um það vil jeg ekki þrátta. Jeg hef sjálfur álitið það þýðíngarlítið fyrir minn málstað og þýðingarlaust, ef ekkert væri annað og betra.
   Þá koma hjá BMÓ andmæli móti því, sem jeg tel merkast, náttúrulýsíngum í Eddukvæðunum og ýmsu fleira þess konar (bls. 47-66). Jeg er að framan búinn að svara þessu til fulls og læt mjer lynda að vísa til þess. Það er að eins endurtekníng að fara að tala um hvert einstakt atriði. Það er í þessum kafla að mest gerist að mögulegleika-hugmyndum BMÓ og hef jeg áður tekið fram, hvað þýðíngarmiklar þær sjeu (12)
   Hjer eftir skoðar BMÓ einstöku kvæði og skoðanir mínar á þeim; það eru: Rígsþula (66-77), Hyndluljóð (77-8), Völuspá (78-107), »grænlensku« kvæðin (104-22).
   Um Rígsþulu hef jeg lítið að segja eða bæta við það, sem stendur í bók minni. Jeg hef þar sett fram - eins og fleiri góðir menn - tilgátu um endann á þulunni, sem nú því miður er týndur og tröllum gefinn fyrir laungu; annars þyrfti víst ekkert rifrildi til. Við BMÓ erum samdóma um (s. 72), að tilgángur kvæðisins er sá, að »sýna ágæti og helgi konungsvaldsins«. Jeg hef getið þess til, að þetta konúngsvald væri hið nýja konúngsríki í Noregi og að Konr ungi, sem þulan endar á og mest hefur kveðið að, eigi að tákna Harald hárfagra. BMÓ hefur auðsjáanlega sótt í sig veðrið, og það ekki lítið, þegar hann fór að rita um kvæði þetta; þar koma fyrir orðatiltæki, sem jeg helst vildi óska að væru óskrifuð. Hann hefur í þessum móði sínum ekki fullkomlega skilið mína hugsun og verð jeg því að skýra hjer frá henni nokkru gjör. Skáldið lætur guðinn Heimdall (Rig) vera á ferð og koma til ýmsra staða eða bæja og geta barn með konu þeirri, sem er á hverjum staðnum; hann verður á þann hátt faðir þræla, bænda, jarla og konúnga, eða þeirra 4 stjetta, sem kalla mætti; og er hver stjettin annari æðri að líkamlegu útliti, atgjörvi og andlegri íþrótt. Konr ungr (= konúngr) er son Rígs jarls Rígs(= Heimdalls)sonar. Í síðustu vísunum, sem til eru af kvæðinu, er bent til þess, hvað Konr ungi átti í vændum. Hanu er á veiðum i skógi og heyrir þá kráku segja á kvisti: »Hversvegna lýtur þú að svo litlu, að vera að skjóta okkur fuglana; þú ættir heldur að hafa mátt (menníngu) til að ríða hestum og fella hermanna« (vísan hjá BMÓ á bls. 68). Hjer er þá - sem víðar, sbr. igðurnar í Fáfnism. -, hvöt til Konar um að verða duglegur hermaður. Í næstu vísu (sjá BMÓ sst.) er bent til þess, að Danr og Danpr eigi dýrar hallir og æðra óðal, en Konr, sje því nokkru æðri yfir höfuð; svo er þeim lýst nánar sem duglegum sjófarendum og hermönnum. Hjer er ekki með einu orði bent til þess, að Konr ungr eigi að berjast við þá Dan og Danp eða vega til hinna æðri óðala þeirra; það liggur eingan veginn nærri, og því síður næst, að setja báðar vísurnar í það samband hvora við aðra, sem BMÓ gerir með Bugge (s. 68-9). Lángsennilegasta skýringin á sambandinu er að mínum skilningi sú, að krákan hefji tal sitt með því að láta í ljósi óánægju sína yfir því að Konr sje að drepa systkini sin (krákunnar), fuglana, í stað hins gagnstæða og mun karlmannlegra (að fella her). Þegar hann svo sje búinn að því, þá geti hann farið að hugsa um sæmilegt kvonfáng, og svo er bent á, hvar slíkt sje að fá (eins og igðurnar vísa Sigurði til Guðrúnar Gjúkadóttur); það sje eingin vanvirða, að mægjast við Dan og Danp, því að þeir sje bæði auðugir og frægðarmenn. Þetta er hugsunin. En nú þrýtur kvæðið. Að Konr hafi átt, að mægjast við Dan og Danp, er sjálfsagt. BMÓ álítur, að hann hafi eignast Dönu, dóttur Danps, og orðið ættfaðir Danakonúnga. Það er auðvitað, að jeg hvorki vil nje get neitað, að svo kunni það að hafa verið. En eftir mínum skilningi á vísum þeim, sem um var getið, er ekkert því til fyrirstöðu, að min tilgátuskoðun sje eða geti verið rjett, nfl. sú, að Konr ungi merki Harald konúng hárfagra sjálfan, sem giftist danskri konúngsdóttur, Ragnhildi ríku, og að kvæðið sje ort honum til virðingar. Með þessu einu móti get jeg skilið, að kvæðið sje ort í Norvegi (að það sje ekki ort á Íslandi hef jeg tilgreint nægar ástæður fyrir í bók minni; að það sje ekki til orðið í Danmörku, álítur BMÓ eins og jeg, bls. 72). Á móti þessu stendur eingan veginn, að Konr ungr sje ekki látinn vera konúngsson, heldur jarlsson, því að jarl samsvarar vel þeim smákonúngum, sem vóru fyrir daga Haralds hárfagra. Þau 18 bú, sem Rígr jarl eignaðist (13), tákna ekkert annað en þau eldri norsku smákonúngadæmi, t. d. ríki Hálfdánar svarta.. Að Haraldur sje látinn vera af goðum kominn er í samræmi við fornar ættartölusmíðar, en að skáldið hleypur yfir alla Ynglínga eða milliliðina stendur i sambandi við alla hugsun kvæðisins, sem er ein »sýmbólík« (eða táknun) frá upphafi til enda. Það er því að eins þarfleysuhjal, sem BMÓ kemur með um þetta mál bls. 73. Það var sannlega eingin niðrun í því að hefja sig upp yfir alla sína forfeður, eins og Haraldur hárfagri gerði og Konr ungr á eflaust að hafa gert. Þetta er nóg til þess að sýna, að mín tilgátuskoðun sje einginn tómur hugarburður eða alveg ti1hæfu1aus tilbúníngur; hún hefur það til síns ágætis, að hún skýrir tilorðníng kvæðisins og tildrög til þess, sem annars eru harðla óskiljanleg. En jeg dreg eingar dulir á það, að þetta er tilgátuskoðun, og þraungva jeg henni ekki upp á neinn. Það sem mjer er mest um vert er það, að kráku-vísurnar eru alls ekki móti þessari skoðun, eins og BMÓ hefur álitið; en þar með er fallinn grundvöllurinn undir hans mótbárum móti mjer. Ef hann vill halda sinni skoðun fram áleingdar, verður hann að finna henni annan og betri fót að standa á.
   Hvað Hyndluljóð snertir (77-8), hef jeg álitið að þau væri norsk og frá 10. öld; ástæðan til þess að telja kvæðið norskt (hinu síðara atriði hefur BMÓ ekki neitað), er efni þess; þar er talin ætt Óttars heimska af Hörðalandi og er búníngur kvæðisins goðfræðiskendur; Óttarr og annar maður höfðu veðjað um ættgöfgi og Freyja lætur Hyndlu tröllkonu kenna Óttari alt hans ættartal. Það er þessa konar kvæði, sem jeg á bágt með að telja íslenskt frá 10. ö1d; en BMÓ hefur skýrt frá skoðun minni í of almennum orðum. Jeg hefði getað skilið, að kvæðið væri frá 12. (eða 13.) öld, ef það væri íslenskt, en þá hefði það og sjálfsagt feingið alt annan búníng. Það er því til lítils að vitna í Heimskrínglu eða önnur sögurit um Norðmenn og Noregs konúnga frá 12. og 13. öld. Þótt Íslendíngar hafi þá ritað um Norðmenn, er ekki sagt, að þeir hafl ort um þá á 10. öld kvæði sem Hyndluljóð. Sú ástæða er, eins og opt brennur við hjá BMÓ, svo, að hún hittir mig ekki, hrekur ekkert hjá mjer. Þessvegna held jeg fast á skoðun minni, meðan hún er ekki hrakin með sterkari rökum, þeirri að þetta kvæði geti ekki verið íslenskt og frá 10. öld um leið, af því að jeg þekki ekkert það í fari og andlegum tilhneigíngum íslendínga á 10. öld, sem geri mjer skiljanlegt, að annað eins kvæði og þetta sje ort á Íslandi.
   Þá kemur meginatriðið hjá BMÓ, kaflinn um Völuspá (bls. 78-104). Ef alt væri talið vandlega, sem um Völuspá er búið að rita, yrði það eingin smáræðisrolla, og væri það í rauninni að bera í bakkafullan lækinn að halda áfram. Jeg hef í bók minni skrifað svo rækilega um þetta kvæði, sem auðvitað er eitthvert hið lángmerkasta allra Eddukvæða, að jeg gæti vísað til þess, því að jeg hef harðla litlu eða eingu við að bæta.
   Það er satt, sem BMÓ segir, að jeg sje samdóma Müllenhoff í öllum meginatriðum, og læt jeg mjer það einga lægíngu þykja; Müllenhoff er sá fysti, sem hefur kent oss að skilja þetta stórkostlega kvæði, svo að vel sje; hans skýríng er alloftast eðlileg og einföld og eftir rjettri hugsunaraðferð; það er mjög sjaldan, sem annað er uppi á baugi bjá honum. Þó er eitt meginatriðið (auk margra smáatriða, sem sýnir, að jeg fylgi honum. ekki i blindni, eins og BMÓ er ekki lángt frá að gefa i skyn, smbr. s. 34 og 39), sem jeg er á alt annari skoðun um, a1dur kvæðisins; hann set jeg af sjerstökum ástæðum til áranna um 935 (Müllenh. hjelt að kvæðið væri frá 9. öld) og einn lærisveinn Müllenhoffs, próf. Hoffory, setti aldurinn til c. 950 af öðrum ástæðum en jeg; þegar 2 komast, hvor með sínu móti, að hjer um bil sömu niðurstöðu, er heldur ætlandi en ekki, að hún sje rjett eða að, minsta kosti ekki fjarri sanni.
   Annað eins kvæði og Völuspá er ekki til orðið ástæðulaust eða svona alveg upp úr þurru; það segir sig sjálft; jeg hef því hjer, eins og endranær reynt (jeg segi reynt) til þess að skilja kvæðið sjálft í sambandi við tímann, sem það er til orðið á, eptir öllum líkindum. Vjer vitum ekki, hver hefur ort það, og höfum eingar frásagnir um, hvers vegna það er ort. Í þetta getum vjer að eins ráðið af kvæðinu sjálfu; en sú niðurstaða, sem maður kemst að, verður aldrei sönnuð til fulls; jeg hef aldrei látið annað í ljósi um mína skoðun, en að hún væri tilgátuskoðun, en hefði við töluvert merkilegt að styðjast.
   Jeg álít kvæðið fullkomlega heiðið og finn -eins og Müllenhoff - ekkert þar í, sem ekki sje eða geti verið heiðið. Sú kenníng, sem birtist í lok kvæðisins um lífið eptir Ragnarök, finst hvergi ella nema hjer (14), og er því ómögulegt að færa sannanir fram fyrir því að hún sje heiðin, en það er líka hins vegar ómögulegt að sanna, að hún sje eingaungu kristileg. Mjer dettur ekki í hug að neita því, að þessi kenning kunni að stafa trá kristninni, þótt skýríng Müllenhoffs sje mjer fyrir mína persónu einhlít - af því að mjer finst hún fullkomlega samkvæm skynsamlegri skoðun -. En svo er líka lokið því, sem jeg get látið eptir þeim, sem öðruvísi hyggja um lok kvæðisins.
   Mjer hefur þótt skiljanlegast, - smbr. BMÓ s. 79 -, að kvæðið væri ort af heiðnum manni til að sýna, að heiðin trú væri eins góð og fyrirheitisrík, eins og kristin trú, sem þegar var farin að gera vart við sig um miðbik 10. aldarinnar; kvæðið sje því orð til að styrkja menn í trúnni - heiðninni -og hnekkja framförum kristninnar. Nú spyr BMÓ, hvort þetta sje »sjálfu sjer samkvæmt«, að kristnin hafi ekki haft nein áhrif á skoðanir skáldsins og þó gefið tilefni til þess, að Völuspá var samin. Alvarlega og ærlega talað - jeg sje ekki nje finn neina sem helst ósamkvæmni í þessu. Hafi það verið hugsun og tilgángur skáldsins, sem jeg hygg að hafi verið, að »yrkja móti« eða »kveða niður« kristnina, hlaut hann að gera það með því að sýna ágæti heiðninnar, eins og hún var, en ekki eins og hún gæti verið eða ætti að vera; annars hefði orð hans og framsetníng valla getað haft nein veruleg áhrif, ef hann hefði farið að taka upp ný trúaratriði, lánuð frá kristninni. BMÓ getur því alls ekki talað nm neina ósamkvæmni hjer hjá mjer, heldur þvert á móti. Meginatriðið er og verður að vera hjá BMÓ andspænis mjer - ekki það, að finna mjer til foráttu ósamkvæmni, sem eingin er, heldur hitt, að hrekja tilgátuskoðun mína um uppruna kvæðisins. Hann hefur nú lángt mál til að gera líklegt, að endirinn á Völuspá sje kristilegur; það er ýmislegt af því athugavert, en ekkert svo ríkt, að það felli allar mótbárur; einkum eru þær ástæður, er BMÓ tilfærir, fyrir því, að fornmenn hafi ekki talið friðinn eptir ragnarök svo mjög tryggan, afarveikar allar (15)
   Eins og jeg hef áður tekið fram er endirinn vafasamur og mig furðar ekki á því, að BMÓ áliti hann kristilegan. En hvort sem heldur er, að svo sje eða ekki, mótmæli jeg algerlega þeirri ályktun, að höfundur kvæðisins hljóti »að hafa verið kristinn« og trúað því, að Kristur mundi sigra og kristnin drepa heiðnina. BMÓ getur ekki sagt slíkt og svo í sömu andránni bætt því við, að höfundurinn hafi »hins vegar« borið »djúpa lotníngu fyrir hinum gömlu goðum« [»sjá t. d. 17. og 18. er« neðanmáls], hafi »mætur á« hinum gömlu goðasögnum »og segi frá þeim með alvöru, svo að hvergi ber á neinum efa um sannleika þeirra«. Annaðhvort hefur höfundurinn verið kristinn og þá getur hann ekki hafa haft »djúpa lotníngu« fyrir heiðnum goðum (sá trúarblendingur, sem BMÓ vísar til, er alt annars kyns, og ber síst af öllu vott um innilega trú á. hvoruga hliðina, heldur miklu fremur trúleysi); eða. hann hefur verið heiðinn, og þá getur hann ekki hafa verið svo gagntekinn af kristnum sið, sem endirinn á Völuspá bendir til, e f hann höndlar um Krist, efsta dóm og eilífa sælu. Jeg gæti tilfært ótal dæmi upp á það, hve djúpa fyrirlitníngu virkilega kristnir menn bafi hatt á athæfi heiðíngja. Hjer er sterk og óleysandi mótsögn hjá BMO sjálfum. Jeg skal bæta því við, að ef V.spá er ort af kristnum manni, er kvæðið með öllu óskiljandi, hvort heldnr sem það er ort í Noregi eða á Íslandi. Og það er skylda BMÓ og þeirra, sem hans flokk vilja fylla, að myndast við að gera einhverja grein fyrir því, hvernig þeir hugsi sjer kvæðið til orðið, hver hafi verið hugsun skáldsins og tilgángur osfrv.; annars er skilningur þeirra á síðustu vísunum út í bláinn og einskis virði. Jeg hef reynt til að heimfæra V.spá til vissra tíma og skýra kvæðið og skilja eftir þeim tímum - og skoðun mín, þótt tilgátu-skoðun sje, stendur óhrakin, og læt jeg svo úttalað um Völuspá að sinni, svo að þetta svar mitt verði ekki alt of láng (16).
   Þá kemur að lyktum hið síðasta meginatriðið, «grænlensku» kvæðin (bls. 104-22).
   Eiginlega hafði jeg síst af öllu vænt sterkra mótmæla frá löndum mínum um þetta atriði, en það gerir nú minna til.
   Svo er mál með vexti, að eitt af hetjukvæðunum er kallað í hdr. Atlamál en grænlensku og er einginn vafi á, að kvæðið sje grænlenskt að uppruna (sjá hjer að framan bls. 11-12), og um það erum við BMÓ alveg á eitt mál sáttir (17). Úr því að það er nú víst, að eitt af kvæðunum er grænlenskt, þá er það ekki að eins rjett hugsun, heldur og vísindaleg skylda manns að vekja þá spurníngu: eru ekki fleiri af þessum kvæðum sveitúngar, eða geta ekki fleiri verið það? Það er þessi spurníng, sem jeg hef gert mjer sjálfum, og án þess að hafa nokkura hugsun á því, hver niðurstaðan og svarið yrði, eða neinn vilja á því að fá annað en já eða nei, ef svo vildi verkast, komst jeg eptir margíhugaða og ítrekaða rannsókn að því, að að minsta kosti 4 önnur kvæði (BMÓ bls. 108) væru ort á Grænlandi (Helreið Brynhildar get jeg ekkert sagt um með frekari vissu nú en þá, og tel það ekki hjer með). Það er auðvitað, að þetta er tilgátu-skoðun, en hún er eingan veginn ósennileg. BMÓ hefur gefið stutt ágrip af því, sem jeg hef tekið fram (bls. 101) og vísa jeg til þess. Öll þessi kvæði (að minsta kosti Atlamál, Oddr. grátr, Goðr. hvöt og Sig. kviða skamma) hafa um lángan aldur verið alment talin með hinum ýngstu kvæðum, og er jeg þar ekki einn um hituna. Þegar nú þessi kvæði bera öll sömu einkennin í mótsetníngu við allan hinn kvæðabálkinn, (og því getur einginn neitað), hvað er þá eðlilegra en að álykta, að þau eigi rót sína í sama lífi og lífskjörum, sje til orðin hjá sömu þjóðinni? - hvað er senni-legra en þetta? Að hinir íslensku nýlendumenn á Grænlandi og eftirkomendur þeirra hafi verið sumir skáld og átt við skáldskap, er beinlínis hægt að sanna (18). Jeg vil hjer að eins minna á, að bragarháttur einn er kallaður «hinn grænlenski», og er að minsta kosti eldri en um 1140 (smbr. Bragfræði mína 54-5); það er ef til vill þýðíngarlaust, að þessi bragarháttur er einmitt fornyrðislagið gamla, sem einkum er haft í Eddukvæðunum, með hendíngum dróttkvæðs háttar (19).
   Móti þessum skoðunum mínum beitir BMÓ gömlu mögulegleikunum, að miklu leyti, og hef jeg áður talað um gildi þeirra. Áhrifameira kynni það að virðast, er BMÓ segir bls. 111, að «þúnglyndis-legar harmatölur», »klúr brígslyrði», «samtöl og eintöl» komi fyrir í öðrum (öllum) kvæðum en þeim «grænlensku»; en hjer yfirsjest BMÓ, eins og optar; það er ekki komið undir því, að þess konar hlutir og einkenni komi á stöku stað annars staðar fyrir - það þurfti hann ekki að segja mjer -, heldur hitt, hvernig þeir sjeu og hvernig þeir komi fyrir; þess vegna er tölvísis-taflan á bls. 111-112 svo gjörsamlega þýðíngarlaus, að jeg er í vafa um, hvort BMÓ er full alvara með henni (20). Þegar tekið er tillit til þess, hvernig þessi samtöl og eintöl eru, hvernig framsetníngin er, full af málaleingingum og þesskonar, getur eingum blandast hugur um andlegan skyldleik þessara kvæða sjerstaklega í fullri mótsetníng við öll önnur Eddukvæði.
   Hinu hef jeg aldrei neitað, að þessi líkíng, þessi skyldleiki, sje ekki full sönnun fyrir því, að þessi kvæði sjeu öll grænlensk, en það er sennilegast eftir minni ályktunaraðferð (sjá að framan s. 9-10). Þess utan eru svo einstöku atriði í kvæðunum sjálfum, sem styrkja þetta, og hef jeg tínt það í bók minni. Auðvitað finnur það ekki vægð í augum BMÓ, og svo koma skýríngar-tilraunirnar. Svo er t. d. með alkunna vísuhelmínginn í Sig.kviðu: »Opt gengr hon [Brynhildr] innan | ills um fylld | ísa ok jökla | apt-an hverjan» (bls. 115). Hjer hefur Bugge ætlað (hann hefur ekki «sýnt« það, eins og BMÓ kemst að orði), að ísa ok jökla væri eignarfall eins og ills og stjórnaðist af fylld. Jeg get ekki neitað því, að mjer hálfgremst það, að BMÓ skuli ekki vera á mínu máli um skilningu á þessum orðum, alveg málfræðislega talað. Mjer finst jeg hafa svo næma tilfinníngu fyrir mínu móðurmáli og fyrir því, hvað menn geta sagt og hafa getað sagt, að jeg get ekki skilið, að neitt íslenskt, norskt eða grænlenskt skáld nokkuru sinni hafi getað komist svo að orði um mann, að hann hafi verið »fullur (fyldur) af [ísum og jöklum», og það bætir ekkert úr skák, þótt «jöklar» sje tekið í merkíngunni »isstönglar» - það væri skárri hrínglandinn innan í aumíngja manninum, og sú líka æstetik! Þetta er verra en smekklaust; þar á mót er það lángt frá að vera smekklaust, að skáldið lætur jafnraunþjáða konu sem Brynhildi gánga (eða «gánga sjer túr»!, eins og BMÓ kemst svo reykjavíkurlega að orði) um eyðileg hjörn sjer til afþreyíngar og um leið til hefndaríhuguuar (hún hefur «illt» í hug). Jeg veit ekki, hvað getur verið skáldlegra og fegurra á sinn hátt, en einmitt þetta, að setja Brynhildi í samband við náttúruna og láta geðsmuni hennar og skapferli að nokkru leyti spegla sig í náttúrunni; en þessi náttúra var einmitt grænlensk (að minni hyggju) (21); BMÓ segir, að hún gæti lika verið skaft-fellsk eða norður-strensk - nú, hver veit nema kvæðið sje ort í Mýrdalnum eða á Hornströndum; jeg skal ekki neita. En hitt þarf ekki að vera, að »það hati verið siður kvenna (22) á Grænlandi að æða [!] um jökla og firnindi, þegar þeim rann í skap». Hjer þarf ekki meira en að skáldið sjálft hafi geingið (ekki endilega ætt, enda stendur, að Brynhildr hafi geingið) um ísbreiður og hjörn, og slíkt var «daglegt brauð» á Grænlandi. Jeg er búinn að fjölyrða nóg um þetta mál, en skal þó bæta við einni athugasemd um það, er BMÓ segir ólíklegt, «að nokkur maður, þó að Grænlendíngur væri, hafi verið svo einfaldur að hugsa sjer höll Gjúkúnga umkríngda jöklum og ísum». Hjer er ekki um neina einfeldni að tala; skáldið getur ekki - eins og að framan er getið - rifið sig lausan frá heimalníngshugsununum og heimfærir því -alveg ósjálfrátt - upp á önnur lönd náttúru síns eigins lands - eins og óteljandi dæmi eru til. Það er líkt og þegar kellíngin í Pilti og stúlku heldur, að kóngurinn drekki ekkert nema kaffi og brennivín, af því að það var það besta, sem hún gat hugsað sjer. Slíkt er ekki heimska eða einfeldni, heldur skortur á þekkíngu og andlegt þraungsýni, sem á rót sína í uppeldi og lífi manns.
   Jeg hef ekki «uppgötvað», að orðið Niflúngr hafi verið borið fram með h (Hnifl-) á Grænlandi; það segir sig sjálft, því að það er borið svo fram í Atlamálum enum grænlensku. Orðmyndin Hnifl- kemur hvergi annars fyrir í norskum eða íslenskum ritum og það er auðsjeð, að Snorri Sturluson hefur ekki þekt h í þessu orði. Þess vegna hef jeg talið sennilegt, að þetta sje grænlenskur framburður, sem hafi myndast þar af tilviljun einhverri. Ef það þykir ósennilegt, má þetta atriði falla burt fyrir mjer; það er nóg samt til styrkíngar mínu máli. En undarlegt er það, að slíkt skuli finnast að eins í þeim kvæðum, sem af alt öðru mynda flokk sjer og eru að gerð líkust Atlamálum hinum grænlensku. BMÓ heldur nú að þetta h bendi til eldra framburðar ekki að eins í Norvegi, heldur og í Þýskalandi, og hann spyr, hvort það sje «alveg óhugsandi, að nafnið hafi upphaflega byrjað á hn í þýsku máli?» (s. 119), og hefur það eftir O. Behaghel, sem auðvitað er rjett, að h falli burt á undan n í fornháþýsku. En þetta á ekkert við hjer; þar sem aldrei neitt h hefur staðið í orðinu, þar getur það ekki hafa fallið burt. Orðið Niflung- (þ. nibelung-) kemur af nifl- og í því orði hefur aldrei verið neitt h (lat. nebula, gr. neféle, sanskr. nábhas osfrv., sjá t. d. Kluges orðabók) og mig furðar á, að minn heiðraði mótmælandi skuli hafa komið fram með þá skoðun, að h hafi verið nokkuru sinni í þessu orði í þýsku, nema því að eins að hann neiti þessum uppruna orðsins, sem jeg gat um og einginn efar, en það hefur hann ekki gert svo jeg viti, og getur valla gert það.
   Jeg hef líka tekið fram það merkilega atriði, að einmitt þau kvæði, sem hjer er um að ræða, hafi líkt upphaf, - og er ekki til neins fyrir BMÓ að vefeingja það sem allir geta lesið. Hann lætur mig segja, að «skáldið láti» þar »í ljós hina persónulegu eða hugrænu (súbjektívu) skoðun (23) sína», og segir, að þetta sje «ekki satt». Það er hægt að ósanna orð manns, þegar þau eru ekki höfð rjett eptir (24). Jeg hef ekki talað um, að það komi fram «súbjektív (hugrænu?) skoðun» í þessum kvæðaupphöfum. Jeg hef af ásettu ráði haft orðatiltæki, sem nær yfír öll þessi upphöf, hvort sem skáldið segir þar: «jeg» eða ekki, nfl. «subjektiv udtalelse» - en það er alt annað en «súbjektív skoðun». Upphaflð «Frétt hefr öld ófo» er skáldsins eigin «udtalelse», maður finnur höfundinn eða sögumanninn í þessum orðum eða bak við þau (en það er eingin «skoðun», sem þar sje í ljós látin, eða valla). «Helreið» byrjar ekki svo, enda hef jeg sjálfur ekki talið hana með vissu til þessa flokka (sbmr. aðofans.33). I sjálfu sjer geta þess konar upphöf verið eins íslensk sem grænlensk - því neitar einginn -, en þegar þessi sjerstaki kvæðaflokkur - sem að öðru leyti er svo samkynja -hefur einmitt líka byrjun og þar á meðal Atlamál en grænlensku, þá er það ekki ósennilegt, að þessi kvæðaupphöf sje vottur um sameiginlegan uppruna. og annað hef jeg ekki sagt.
   BMÓ klykkir út með því að segja, að «sterk-asta röksemdin» gegn mjer sje »þögn Konúngsbókar um grænlenskan uppruna kvæðanna». Þessu mótmæli jeg með öllu; «þögn Konúngsbókar» um þetta atriði væri því að eins röksemd, að hún segði frá, hvar flest hin kvæðin væru til orðin. En hún gerir það að eins við Atlamál (og Atlakviðu ránglega), með öðrum orðum, «þögnin» verður alveg þýðíngarlaus, verður ekki einu sinni röksemd, hvað þá heldur «hin sterkasta».

Samkvæmt framanskrifuðum athugasemdum get jeg ekki tekið aptur neitt af því, sem jeg hef skrifað um heimili Eddukvæðanna. Það er svo lángt frá þvi, að BMÓ hafi sýnt («vjer höfum sjeð» osfrv.), að ástæður mínar «hrökkvi sundur eins og fífukveikur», - enda mætti nú líka fyr vera -, að jeg hef sýnt, við hve lítið mótbárur BMÓ hafa að styðjast. Jeg hef auðvitað eingar óbilandi sannanir fyrir mínu máli - þær eru ekki til -, en jeg geing ekki duldur þess (og þykir ekkert fyrir að segja það), að jeg hafi mjög sterkar sennilegleika-ástæður með mjer, og þær hefur BMÓ ekki veikt með sínum mótbárum, sem flestar eru annaðhvort tilgátuskoðanir eða mögulegleika-skoðanir eða þá byggðar á misskilníngi. Eins verð jeg enn þá að geta - af því að verið getur, að því verði blandað saman -, að þótt aldrei nema BMÓ hefði tekist, að veikja eða hrekja skoðanir mínar, þá hefur hann ekki með því sannað um leið, að kvæðin sjeu íslensk (25).
   Að Íslendíngar hafa safnað þessum kvæðum og geymt þau er ekki óskiljanlegra, en að þeir hafa safnað og geymt kvæði annara norskra skálda (Braga, Þjóðólfs ór Hvini, Guttorms, Eyvindar og fleiri -smbr. orð Snorra í Heimskrínglu formálanum); það kemur af gamni því og áhuga, sem Íslendíngar höfðu á öllum andlegum fornmenjum - ef svo mætti að orði komast -; þegar því BMÓ spyr (bls. 125), hvort dæmi sjeu til þess, að nokkur þjóð hafí tekið við skáldskap annarar þjóðar, «en ekki skapað neitt líkt sjálf» (26), þá er hjer sem optar, að þessi röksemd fer fram hjá mjer. Jeg hef einmitt sjálfur sagt og reynt að sýna, að hin eldri Eddukvæðagjörð hafi vakið líkan skáldskap á Íslandi á 12. öld, einmitt á þeim tíma, sem hægt var að gera ráð fyrir því; af þessum eptirlíkingar kveðskap hygg jeg þar að auki að til sjeu leifar. Hvort sem þetta er nú rjett eða ekki, þá eru orð BMÓ («en ekki skapað neitt líkt sjálf») alveg þýðíngarlaus sem vopn gegn mjer.
   Beatipossidentes!, sælir eru þeir, sem hafa hlutinn í vörslum sínum (possidentes þýðir ekki ætíð alveg sama sem eigendur); það tek jeg undir með BMÓ. Aldrei verður sá heiður tekinn af oss Íslendíngum, að hafa safnað þessum ágæta kvæðasjóð og geymt hann um margar aldir, að því leyti er hann vor eign - þar á er einginn efi, En vjer höfum geymt ýmislegt fleira, sem er ekki vor upphaflega eign, svo að það er ekki eins dæmi eða undantekníng, þótt eitthvað af Eddukvæðunum - eða flest - væri óíslenskt að uppruna.
   BMÓ segir að síðustu, þegar um heimkynni Eddukvæðanna sje að ræða, verði «útsjónin af Heklutindi bæði víðari og betri en frá nokkrum öðrum stað, hvort sem hann heitir Dofrafjall eða Brocken». Ekki er jeg alveg á sama máli - jeg þori andspænis þessu að segja, að hollast sje að líta á málið bæði frá Heklutindi og frá Dofrafjalli, og það er það sem jeg hef reynt að gera og alveg óvilhalt.
   Goethe segir einhvers staðar:

Willst du den dichter recht verstehn,
musz du im dichters lande gehn.

- «ef þú vilt skilja skáldið til fulls, verðurðu að dvelja í landi skáldsins». Fyst í Noregi hefur mjer rjettilega skilist svo undramart í Eddukvæðunum, sem jeg hefði aldrei getað skilið, þótt jeg hefði farið landshorna á millum á Íslandi - þar fyst hef jeg skilið skáldið til fulls. Þess vegna held jeg fast við skoðun þá, sem jeg hef komist að og dr. Björn M. Ólsen hafði áríð 1884.


Finnur Jónsson 1895.


Noter:

1) Sem jeg hjer eftir leyfi mjer að skammstafa BMÓ Annars vil jeg biðja lesendurna að hafa ritgjörð BMÓ við hliðina; ella er hætt við, að mönnum skiljist ekki alt til fulls.
2) Gleiðletrað af mjer.
3) Jeg fæ, vonandi, innan skamms tækifæri til að rita mótí því flestu, sem þar er sagt.
4) Á dönsku: »Ganske vist har det islandske folk overfor Eddasangene væsenlig forholdt sig modtagende, opbevarende og nedskrivende«.
5) Til þessarar undrunar var nú samt lítil ástæða, úr því að jeg ljet skoðanir uppi, sem BMÓ hafði sjálfur haft. Síst af öllu átti honum að geta »brugðið í brún« við það.
6) Að hveralundr í Völuspá (bls. 101) sje sjerstaklega íslenskt er ómögulegt að segja nje sanna; þvílík orðasamsetning er nauða-óíslensk, ef hverr er = »vellandi brennisteinshver«
7) Geitaromsa BMÓ, bls. 47-8, er með öllu þýðíngarlaus í þessu sambandi.
8) Þar sem BMO segir að »öll alþýða.. hafi feingist við skáldskap i viðlögura« (s. 10) og vill sanna það með níðinu um Harald blátönn, verður hann að gæta að því, að þar stendur, að yrkja skyldi niðvísu fyrir nef hvert; þar stendur ekki, að hver maður skyldi yrkja, heldur gat einn ort fyrir marga. Það er óþarfi að leiða meira út úr orðunum en þau segja.
9) Tilgátu-skoðun BMÓ um goðana á íslandi og afskifti þeirra af trúnni (s. 20-27) kemur ekki mál við mig; mjer finst hún raunar ómöguleg, en - dæmi sögufræðíngarnir. Ef annars er vel gáð að, sannar þessi tilgáta heldur mitt mál en BMÓ, og það var þó ekki meiningin.
10) Að þessu leyti erum við BMÓ hjer um bil samdóma (smbr. hans orð s. 35-6). Að hann gerir mjer ástæðulausa getsök (bls. 36) er af því sem hjer er sagt ljóst.
11) Að eikja stendur í þulum hefur ekki meiri þýðírigu en að þar stendur drómundur og galeið; öll þessi orð eru tínd saman úr eldra skáldskap.
12) »getur vel verið« (bls 48) »varlega gerandi að fullyrða«, »er ekki ólíklegt« (bls. 49). »alls ekki víst«, »það má ætla« (50), »gat það haldist« (58), »gæti vel« (63), »gat borið« (64), »gæti því« (65) osfrv. - Þetta er sýnishorn af röksemdaleiðslu BMÓ í þessum kafla, og sýnist mjer hún heldur en ekki þunn. Jeg vil safna hjer saman fáeinum smámunum í þessum kafla. - Það sem segir um bautasteina (s. 50) sýnir, að BMÓ hefur ekki ferðast mikið í Noregi; bautasteinarnir »íslensku« hafa víst allir farið sömu leiðina sem »rúnasteinarnir« ísl. - Haugsetan, sem um er stundum talað, finst hvergi nefnd á Íslandi, og það mundi þykja djarft af mjer að fá haugsetu út úr stó1setu Geirríðar og Langholtsþóru! (50-1): orðatiltækin sat úti sýna einmitt, að þær hafa setið rjett við dyrnar. Að setja hauga í samband viö þetta er að eins heilaspuni - Að heimfæra alt undir fasta og alment hafða talshætti og dagsdaglegar samlíkíngar, sem BMÓ gerir (67-60), er fullur ógjörníngur, og hann getur aldrei sannað sitt mál með þeim tilgátuskýringum, sem altat bregður tyrir. Vísan á bls. 60 sannar því síður neitt sem það, er þar er nefnt af óíslensku, byggist alt á lestri þeirrar bókar, sem hvert mannsbarn á íslandi hefur kunnað meira eða minna úr, en það er biblían, og þarf ekki að fara leingra. Það er auðvitað munur á, hvort vísa er ort á 10. og 11. eða á 18. og 19. öld.
13) BMÓ segir (bls. 71): »Konr ungr ræður upphaf1ega ekki yíir meiru, en þeim 18 búum . . . og sjer hver heilvita maður, að það getur ekki verið allur Noregur«. Þetta sjer auðvitað hver heilvita maður; en það veit líka hver maður, að Haraldur hárfagri rjeð upphaflega aðeins smáríki föður síns!
14) Þó sýna Vafþrúðnismál, eins og BMÓ tekur rjettilega fram, að trúin á líf eftir Ragnarök sje heiðin.
15) Að örninn sje látinn »veiða fiska á fjalli« kemur blátt áfram af því, að úr því að menn hugsuðu sjer erni til eftir ragnarök, gátu þeir ekki hugsað sjer, að þeir lifðu af öðru en vanalegri fæðu; og það að dýr fylgdi eðli sínu, var ekki brot á neinu friðarlífi. Ófriður og manndráp var alt annað og hinu má ekki jafna til þess. Líkt er um hin smáatriðin að segja, að þau eru þýðíngarlaus, en jeg vil ekki þreyta lesendurna á þeim smámunum. Það er hætt við, að úr því yrðu miðaldalegar »dispútasíur«.
16) BMÓ skrifar og móti skoðun minni á völunum, sem jeg hef rökstutt í ritgjörð minni í »Þremur ritgjörðum«, og vísa jeg til hennar. Ummæli K. Maurers og BMÓ hafa ekki haggað skoðun minni hið minsta, og mætti vera, að jeg skrifaði sjerstaklega um það mál, áður langt um líður. -Bls. 99 segir BMÓ rjett, að vísan Bræðr munu berjast osfrv. sje lýsíng á framtíðinni; en sú lýsíng er eftir minni skoðun einmitt gripin út úr höfundarins samtíð; hann heimfærði upp á hina síðustu og vestu tíma, það sem hann vissi vest fra sínum tíma; og gat ekkert verið eðlilegra en það.
17) Atlakviðu sleppi jeg alveg í þessu máli; það kvæði getur ekki verið grænlenskt.
18) Smbr. ritgjörð mína i Letterstedtska tímaritinu («Nord. tidskr. f. litt., vetenskap och konst) 1893, s. 550 osfrv.
19) Sja Háttatal Snorra 71. vísu.
20) Þetta minnir mig á hina síðustu bók G. Stephens, þar sem hann vill sanna móti Wimmer, að eingar þýskar rúnir (rúnaletranir) sje til, af því að þær, sem »þýskar» sje, sjeu svo undrafáar í samanburði við öll þau hundruð, sem til sjeu á norðurlöndum. Stephens sannar þetta með því að eins að gefa lista yfir allar rúnaletranir! En orðmyndirnar, málið og rúnamyndirnar, - það er einskis virði!
21) Jeg hef nýlega sjeð mynd af Julianehåb á Grænlandi (það er á nestánga milli Eiríksfjarðar og Einarstjarðar, helstu fjarðanna); þar hjá er vatn og var alt ísi lagt og var myndin tekin síðast í júnímán. Þetta sýnir deginum ijósara, að fyrir grænlenskt skáld er eðlilegra en fyrir ísl., árið í kríng, að tala um ísa og jökla.
22) Gleiðletrað af mjer.
23) Gleiðletrað af mjer.
24) Mjer dettur ekki í hug að segja, að BMÓ hafi gert það vísvitandi, heldur í gáleysi.
25) Jeg skal geta þess hjer, að í raun og veru hefði mjer ekkert verið kærara en geta sannað, að Eddukvæðm flest eða öll væru íslensk að uppruna, en tilflnníngin í þá stefnu verður að víkja fyrir vísindalegri samviskusemi.
26) Gleiðletrað af mjer.