Skýringar við myndirnar (Þriðja bindi)

Fra heimskringla.no
Hopp til navigering Hopp til søk
Velg språk Norrønt Islandsk Norsk Dansk Svensk Færøysk
Denne teksten finnes på følgende språk ► Islandsk.gif


Fornaldarsögur Norðurlanda


GUÐNI JÓNSSON
og
BJARNI VILHJÁLMSSON
sáu um útgáfuna


Skýringar við myndirnar
Þriðja bindi


Forsíðumynd þessa bindis er af stefni Ásubergsskipsins, áður en það var tekið úr haugnum, sbr. skýringar I. bindis.
   Skrautborðarnir ofan við sögurnar eru þeir sömu og i I. bindi, sjá skýringar þar.
   Á móti upphafi Gautreks sögu er mynd af útskornu drekahöfði "með gapandi höfði og gínandi trjónu". Það fannst meðal margra annarra gripa á Ásubergi í Noregi, og eru myndir af nokkrum þeirra í I. bindi. Fornleifafundur þessi er frá miðri 9. öld.
   Á bls. 56, 154 og 350 eru myndir af tveimur hliðum hins fræga steins, sem Haraldur blátönn Danakonungur reisti foreldrum sínum, Gormi gamla og Þyri Danabót, í Jalangri í Suður-Jótlandi, þar sem haugar þeirra eru. Á steininum eru þrír skreyttir fletir. Á einn þeirra er klappað kynjadýr, og er engin mynd af því í þessari bók. Á öðrum er mynd af manni með útréttum handleggjum, en fornnorrænt hnútaverk allt í kring (bls. 56). Þetta er frelsarinn á krossinum, ein hin fyrsta Kristsmynd norrænna manna, og sýnir skemmtilega tilraun til að fella nýstárlega, erlenda hugmynda inn í hinn forna skrautstíl heimalandsins. Á þriðja fletinum er löng rúnarista (bls. 154 og 350), sem lesin er á þessa leið: "Haraldur konungur bað gera kuml þessi eftir Gorm, föður sinn, og eftir Þyri, móður sína, sá Haraldur, er sér vann Danmörk alla og Noreg og Dani gerði kristna." Kristusmyndin á steininum skýrist af þessum orðum. Steininn hefir Haraldur reist nálægt 980.
   Á bls. 190, andspænis titilblaði Sörla sögu sterka, og á bls. 420, er mynd af sjálenzkum silfurbikari frá þjóðflutningatímanum. Mjöð sinn drukku höfðingjar úr hornum eða silfurkerum.
   Á bls. 192, móti upphafi Sörla sögu sterka, og bls. 362, er sænskur myndsteinn frá þjóðflutningatímanum. Myndin, sem klöppuð er á hann, sýnir hestaat, og fylgir vopnaður maður hvorum hesti.
   Á bls. 230, gegnt upphafi Hjálmþés sögu ok Ölvis, og bls. 396, er mynd af gotlenzkum myndsteini með drekafléttum og rúnaletri. Steininn er frá víkingaöld.
   Á bls. 284, móti upphafi Hálfdanar sögu Eysteinssonar, og bls. 428, er mynd af skreyttri bronsnælu frá Eylandi. Slíkar nælur voru fremur fátíðar á víkingaöld, og eru þær, sem til eru, flestar sænskar. Stíll nælunnar er ómengaður Borróstíll frá 10. öld.
   Á bls. 319, undir Hálfdanar sögu Eysteinssonar, og bls. 417, er mynd af litlu goðalíkani úr bronsi. Það fannst nálægt Eyrarlandi í Eyjafirði, en álíka smálíkön hafa fundizt í Svíþjóð. Líkan þetta er sennilega af Þór með hamarinn Mjöllni. Fornmenn báru á sér litlar goðamyndir eins og þessa til heilla sér.
   Á bls. 320, gegnt titilblaði Hálfdanar sögu Brönufóstra. og bls. 418, er mynd af öxi úr víkingagröf í Mammen í Jótlandi. Hún sýnir vel, hve mikla stund fornmenn lögðu á að búa vopn sín sem fagurlegast. Inn í hliðar axarblaðsins er hamrað dýrindis skrautverk úr silfri. Stíll þess er Jalangursstíll, og sýnir það, að öxin er frá 10. öld.
   Á bls. 322, móti upphafi Hálfdanar sögu Brönufóstra, er mynd af norskri hringnælu úr bronsi. Hún er skreytt í Ásubergsstíl og er frá fyrri hluta 10. aldar.
   Á bls. 394, undir Yngvars sögu víðförla, er mynd af norskri skrautnælu úr bronsi. Nælur eins og þessi voru með algengustu skartgripum kvenna á víkingaöld. Þær eru kallaðar smárablaðsnælur vegna lögunar sinnar. Á hverju laufi liggur dýr eða ormur í hring. Stíllinn er Borróstíll, sem einkum var í tízku á 10. öld.
   Á bls. 434, gegnt upphafi kvæðanna, er mynd af tingli ásubergskipsins, grafið í eldri Ásubergsstíl, frá fyrri hluta 9. aldar.

KRISTJÁN ELDJÁRN.