Minningarathöfn um Finn Jónsson prófessor

Fra heimskringla.no
Hopp til navigering Hopp til søk
Velg språk Norrønt Islandsk Norsk Dansk Svensk Færøysk
Denne teksten finnes på følgende språk ► Islandsk.gif


Morgunblaðið
6. apríl 1934, s. 6


Minningarathöfn um Finn Jónsson prófessor


Í gær var Finnur Jónsson borinn til moldar í kaupmannah., og kl. 9 um kvöldið hafði Háskóli íslands boðað til minningarathafnar um hann í neðri deildar sal Alþingis. Viðstaddir voru m. a. bróðir hins látna, Ingólfur Jónsson og fleiri af ættmönnum hans, mentamálaráðherra Þ. Briem, flestir prófessorar háskólans, dómarar hæstarjettar, dr. J. Helgason biskup, Marteinn Hólabiskup í fullum skrúða, Fontenay sendiherra, Guðmundur Finnbogason landsbókavörður o. fl. af æðstu embættismönnum og helstu vísindamönnum þjóðarinnar.

Athöfnin hófst með því að Karlakór K. F. U. M. söng hinn forna latn. útfararsálm: „Iam moesta quiesce querela", er síðast mun hafa verið sunginn hjer i Rvík, við jarðarför Björns M. Ólsens. Þá ávarpaði rektor háskólans, dr. Alexander Jóhannesson, samkomuna þessum orðum:


Ávarp rektors.

Finnur Jónsson hefir verið borinn til moldar í dag. Löngu og merkilegu lífsstarfi er lokið. Hann var sístarfandi alt lífið fram að síðustu stundu, og þótt hann hafi fyrir nokkrum árum látið af embætti fyrir aldurs sakir, virtist starfsþrek hans óbilað. Síðasta rit hans barst hingað til lands nokkrum dögum fyrir andlát hans. Hann fell því eins og víkingur í miðri orustu, þótt ef til vill hafi vígmóður verið. Vjer erum hjer saman komin til þess að minnast hans. Milli háskóla vors og hans lágu margir þræðir. Þegar háskólinn var stofnaður og lög sett um hann á Alþingi 1909, gerði Finnur Jónsson erfðaskrá sína, sem birt er í ársriti háskólans 1911. Í henni gefur hann háskóla vorum alt bókasafn sitt að sjer látnum. Engin dýrmætari bókagjöf getur háskóla vorum hlotnast. Finnur Jónsson var sístarfandi meira en 50 ár. Vart verður tölu komið á allar þær ritgerðir, er hann samdi um íslenska tungu, bókmentir og menningarsögu og birti í ýmsum tímaritum á Norðurlöndum og annars staðar. Hann annaðist útgáfu fjölda íslendingasagna og annara fornrita og samdi kenslubækur. Hann átti fjölda lærisveina, ekki aðeins danska og íslenska, heldur einnig meðal annara þjóða. Hann átti oft í vísindalegum deilum eins og eðlilegt var um mann, sem um langt skeið hefir verið álitinn hafa haft víðtækasta þekking allra manna á íslenskum fræðum. Það stóð oft styr um Finn Jónsson meðal lærðra manna. Ef allir norrænufræðingar heimsins væri saman komnir, myndi Finnur gnæfa upp úr þeim fjölda. Hann skiftist því á ritum við flesta vísindamenn í norrænum og germönskum fræðum í heiminum. Ungir rithöfundar keptust um að senda honum rit sín. Bókasafn hans geymir því alt það merkasta, er komið hefir út í norrænum fræðum í hálfa öld. Þetta bókasafn verður nú flutt hingað til lands og tekið til notkunar í norrænudeild háskóla vors.

Háskólinn sæmdi fyrir allmörgum árum Finn Jónsson þeim hæsta heiðri, sem hann hefir yfir að ráða, er hann gerði hann að doctor litterarum islandicarum. Þeim heiðri höfðu áður verið sæmdir, þeir Björn M. Ólsen og Þorvaldur Thoroddsen. Jeg hygg, að Finni Jónssyni hafi þótt vænt um þenna heiður. Honum þótti vænt um háskólann íslenska og vildi veg hans og gengi í hvívetna. Hann kann að hafa látið eitt og annað orð falla um það, er honum þótti miður fara í störfum íslenska háskólans. En þau orð voru mælt af umhyggju fyrir velgengni og sóma þessarar stofnunar. Hann stóð sjálfur í fremstu röð við háskólann í Kaupmannahöfn, mikils metinn fyrir vísindastörf sín og afrek í íslenskum fræðum, ekki aðeins meðal Dana, heldur einnig víðsvegar um önnur lönd. Jeg minnist þeirra orða, er einn af merkustu málfræðingum Þjóðverja, Sivers, eitt sinn hafði um Finn Jónsson; hann dáðist að dugnaði Finns og sagði, að hann hlyti að vera sívinnandi, nótt og dag. Sjálfur var Sivers einn af mikilvirkustu vísindamönn um Þjóðverja á síðasta mannsaldri.

Nú eru þeir dánir, þessir þrír doctores litterarum islandicarum. En minning þeirra mun lifa um ókomnar aldir. Rás tímans heldur áfram. Það fennir yfir nöfn flestra manna. Saga Íslands á liðnum öldum er saga þeirra manna, er gnæft hafa upp úr fjöldanum, saga brautryðjanda og afreksmanna þjóðfjelagsins, saga þeirra, er átt hafa sinn þátt í að auka velmegnun og þroska þjóðarinnar, saga þeirra, er bæta við þekking hennar og hugsanaforða. En engu ríður oss íslendingum meir á en að þekkja sjálfa oss, sögu vora, mál og menning á liðnum öldum. Í ritum forfeðra vorra endurspeglast eðli íslendinga og í þeim sjáum vjer, hvers oss er ábótavant, en sú þekking skapar skilyrði til aukinnar menningar og framfara. Finnur Jónsson hefir alt sitt líf unnið að þessu göfuga hlutverki og verið stórvirkur. Nafn hans mun geymast á ókomnum öldum sem eins mikilvirkasta vísindamanns á endurreisnartímabili þjóðar vorrar. Hann mun verða ungum mönnum leiðarstjarna í þekkingarleit á lífi og hugsun forfeðra vorra. En vísindastarfa hans og lífs mun nú minnast lærisveinn hans, prófessor Sigurður Nordal.

Þegar rektor hafði lokið máli sínu, flutti próf. Sig. Nordal minningarræðu þá, er vjer birtum á öðrum stað í blaðinu, þar sem hann gerir ljósa grein fyrir vísindaafrekum Finns Jónssonar, mintist að lokum á hvers virði sjer hafi verið vinátta hans og hvílíkur öðlingur hann var til orða og verka.