Formáli (Þriðja bindi)

Fra heimskringla.no
Hopp til navigering Hopp til søk
Velg språk Norrønt Islandsk Norsk Dansk Svensk Færøysk
Denne teksten finnes på følgende språk ► Islandsk.gif


Fornaldarsögur Norðurlanda


GUÐNI JÓNSSON
og
BJARNI VILHJÁLMSSON
sáu um útgáfuna


Formáli
Þriðja bindi


MEÐ bindi þessu líkur útgáfu þeirri af Fornaldarsögum Norðurlanda, er hafin var á fyrra ári, og hefir henni því skilað fram með þeim hraða, sem ráð var fyrir gert. Í útgáfunni, sem er alls rúmlega hálft 15. hundrað blaðsíður eða röskar 90 arkir að stærð, eru prentaðar allar þær fornaldarsögur, sem voru í hinum eldri útgáfum (Fas I og Fas 2), og fjórar að auki, sem eru miður kunnar hér á landi, en eru allar merkilegar hver á sinn hátt og eiga að efni og stíl beint heima í safni þessu. Eru þá alls í þessari nýju útgáfu 36 sögur og þættir.
   Sögurnar í þessu bindi eru mestmegnis skáldsögur, er saman hafa verið settar til gamans mönnum að smekk þeirra tíma. Margar af sögunum eru skemmtilegar og geyma ýmis forn minni, þótt ósögulegar séu. Ein með hinum merkari sögum af því tagi er Gautreks saga, er hefir að geyma söguna um Ætternisstapa og hinn einkennilega átrúnað í sambandi við hann, frásögnina um Gjafa-Ref, sem ferðast milli konungahirða með smágjafir og þiggur alls staðar margföld laun fyrir, og um hinn spakvitra Nera jarl, fóstra hans. Þá er Hrólfs saga Gautrekssonar mikil saga, er snýst um kvonbænir söguhetjanna og hversu mikið þeir urðu að vinna til kvenna sinna. Hjálmþjés saga og Ölvis er að mörgu aðlaðandi saga, þó að tröllsleg sé á köflum. Þar segir frá þungum álögum og fögru dæmi tryggðar og vináttu, er Hjálmþér ber Hörð, vin sinn, í þrjá daga dauðan, að því er hann ætlar, til þess að skilja hann þó eigi við sig, og leysir hann þannig úr álögum. Sögur þeirra nafna Hálfdanar Eysteinssonar og Hálfdanar Brönufóstra eru báðar skemmtilegar og eru meðal hinna kunnari sagna í safni þessu. Illuga saga Gríðarfóstra er álagasaga og er ágætust fyrir það, að hún lýsir óbifandi karlmennsku og hugrekki, hinu fullkomna óttaleysi hetjunnar. Leysir hann með því ekki aðeins sjálfan sig frá illum dauða, heldur og fagra kóngsdóttur úr grimmilegum álögum. Saga þessi hefir borizt til Norðurlanda á miðöldum og lifir þar enn í sögum og þjóðkvæðum.
   Sagan og þættirnir, sem þá koma, hafa ekki verið í hinum fyrri útgáfum fornaldarsagnanna. Yngvars saga víðförla er um sænskt efni. Hún gerist fyrir miðja 11. öld og segir mest frá könnunarleiðangri suður og austur í heim. Yngvar víðförli er söguleg persóna, og hafa fundizt í Svíþjóð hvorki meira né minna en 25 rúnasteinar með nafni ýmissa förunauta hans, þar sem venjulega er komizt svo að orði, að þeir hafi fallið eða dáið "austr með Yngvari". Má að þessu marka, að þessi ferð Yngvars hefir þótt frægðarför mikil og mjög verið rómuð á sínum tíma. Þorsteins þáttr bæjarmagns og Helga þáttr Þórissonar segja gerst frá Goðmundi konungi á Glæsivöllum, sem getið er aðeins lauslega í ýmsum öðrum fornaldarsögum. Þess má geta, að í Þorsteins þátt hefir Grímur skáld Thomsen sótt uppistöðuna í kvæði sitt Á Glæsivöllum. Tóka þáttr Tókasonar er stuttur þáttur, þar sem gerður er skemmtilegur samanburður á köppum Hrólfs konungs kraka og Hálfsrekkum. Af því efni orti Grímur Thomsen hið ágæta kvæði sitt Tókastúf. Verður nú hér frá að hverfa, og skal þá gera grein fyrir texta sagnanna í þessu bindi.
   Gautreks saga er til í ýmsum handritum, og eru merkust þeirra AM 590 b, c, 4to, Sth. II, og AM 152, fol. Tvö hin fyrrnefndu eru pappírshandrit frá 17. öld, en hið síðastnefnda skinnhandrit frá 15. öld, en öll eru þau frá einni og sömu skinnbók runnin, og er því texti þeirra mjög á eina leið. Bezt þykir þó handrit það, er fyrst var talið, og eru útgáfur sögunnar byggðar á því. Hér er fylgt í öllu textanum í úgáfu Wilh. Ranisch, Die Gautrekssaga, Berlin 1900. Sagan er einnig til í styttri gerð, og er hún einnig prentuð í útgáfu Ranisch.
   Hrólfs saga Gautrekssonar er sumpart varðveitt í sömu handritum sem Gautreks saga, en sumpart ein sér, og eru alls til af henni fjölda mörg handrit og handritabrot. Eitt brotið er talið frá því um 1300, og er það elzta fornaldarsöguhandrit, sem til er. Í Fas I er sagan prentuð eftir AM 590 b, c, 4to, eins og Gautreks saga, og er þeim texta fylgt hér. Annars er Hrólfs saga Gautrekssonar gefin út í Zwei Fornaldarsögur af F. Detter, Halle 1891. Þar er lögð til grundvallar skinnbókin Sth. 7, 4to, sem er frá fyrra hluta 14. aldar og hefir einnig að geyma Örvar-Odds sögu og Ásmundar sögu kappabana. Er texti sögunnar þar auðsjáanlega betri og frumlegri. Hefði því átt að nota þann texta hér, en því miður ollu því sérstök atvik, að því varð eigi framgengt.
   Egils saga einhenda og Ásmundar berserkjabana er varðveitt í þrem skinnhandritum, AM 343 a, 4to, AM 589 e, 4to og AM 577, 4to. Elzt og bezt er fyrrnefnda handritið, sem er frá því um 1400, og hefir það verið lagt til grundvallar útgáfum sögunnar. Hér er fylgt textanum í útgáfu Åke Lagerholms í Drei lygisögur, Halle 1927 (Altnordische Saga-Bibliothek, nr 17).
   Sörla saga sterka er prentuð hér eftir Fas I, en þþar er hún gefin út eftir 82 b, 4to í Háskólabókasafninu í Khöfn. Sagan er eingöngu til í papppírshandritum.
   Hjálmþjés saga ok Ölvis er hér einnig prentuð eftir Fas I, en þar er sagan gefin út eftir Sth. 30, 4to Sagan er aðeins til í pappírshandritum.
   Hálfdanar saga Eysteinssonar er bezt varðveitt í AM 343 a, 4to, sem áður er nefnt, og eru útgáfur sögunnar byggðar á því. Hér er fylgt textanum í útgáfu F. R. Schröders, Halle 1917 (Altnordische Saga-Bibliothek, nr. 15).
   Hálfdanar saga Brönufóstra er prentuð eftir útgáfunni í Fas I, en sú útgáfa er byggð á skinnbókinni AM 152, fol.
   Illuga saga Gríðarfóstra er einnig prentuð hér eftir Fas I, en þar er hún gefin út eftir AM 123, 8vo, skinnbók frá 15. öld.
   Yngvars saga víðförla er varðveitt í mörgum handritum, en bezta handritið er skinnbókin AM 343 a, 4to. Eftir því er sagan gefin út í nákvæmri, stafréttri útgáfu Emil Olson, Kaupmannahöfn 1912, og er sagan prentuð hér eftir þeirri útgáfu. Þar fylgja einnig með áletranir á öllum Yngvarssteinunum, sem áður getið.
   Þorsteins þáttr bæjarmagns er prentaður hér eftir útgáfunni í Fornmanna sögum III, 175-198, en þar er hann gefinn út eftir skinnbókinni AM 510, 4to.
   Helga þáttr Þórissonar og Tóka þáttr Tókasonar eru báðar í Flateyjarbók, og er textinn hér borinn saman við ljósprentuðu útgáfuna, Khöfn 1930.
   Í Viðbæti höfum við látið prenta kvæði og fleira, sem sumpart var í fyrri útgáfum foraldarsagnanna og að öðru leyti þótti við eiga. Vísurnar um Víg Jörmunreks, Sörla og Hamðis og um Hjaðningavíg, sem eru allar úr Ragnarsdrápu Braga ins gamla, og enn fremur Krákumál og Bjarkamál in fornu eru prentuð hér eftir fornkvæðaútgáfu Finns Jónssonar (Den Norsk-islandske Skjaldedigtning, Khöfn 1912-15). Viðbótin við Heiðreksgátur er úr Hauksbók og prentuð eftir útgáfu hennar, Khöfn 1892-96. Loks er Eireks saga víðförla tekin með hér í viðbæti. Vildum við eigi sleppa henni með öllu, þar sem hún var í hinum fyrri útgáfum fornaldarsagnanna, enda þótt hún ætti þar eigi heima. Sagan er helgisaga, en ekki fornaldarsaga. Hún er prentuð hér eftir texta Flateyjarbókar og borin saman við ljósprentuðu útgáfuna frá 1930.
   Um vinnu okkar við útgáfuna er þess að geta, að við skiptum nokkurn veginn að jöfnu með okkur að búa sögurnar undir prentun. Samlestur textans við útgáfur þær og handrit, sem eftir er farið, hefi ég annazt í öllum bindunum, og er því einkum mér um að kenna, ef ónákvæmni gætir í því efni. Prófarkir höfum við síðan báðir lesið og jafnan borið okkur saman, ef um einhver vafaatriði hefir verið að ræða. Þrátt fyrir það er ekki að efa, að einhverjar prentvillur finnist, en við vonum, að þær séu tiltölulega fáar miðað við stærð verksins.
   Í öndverðu var ráðgert, að láta þessu bindi fylgja skýringar og skrá um nöfn, þótt eigi væri það ákveðið að fullu. Frá því hefir nú verið horfið vegna þess, að erfitt reyndist að setja skýringum hæfileg takmörk, svo að þær fullnægju þó mismunandi þörfum og kröfum lesenda, enda venja, að slíkum alþýðuútgáfum fylgi ekki skýringar nema þá á vísum. En auk þess er allur þorri vísnanna í fornaldarsögunum svo auðskilinn, að engum meðalgreindum manni er ofætlun að lesa þær sér til gagns. Nafnaskrá við almenna útgáfu skáldsagnasafns, ein og fornaldarsögurnar eru, er allmikið álitamál. Hefði þetta hvorttveggja lengt ritið til stórra muna og tafið útkomu þessa bindis um alllangan tíma. Í stað þessa var valin önnur leið, sem að mínu viti kemur að miklu raunhæfari notum. Það er skráin um helztu atriðisorð aftan við þetta bindi. Hún er, svo langt sem hún nær, lykill að hinu menningarsögulega efni fornaldarsagnanna og ætti að koma þeim að nokkuru haldi, sem vilja kynna sér sögurnar frá þeirri hlið. Einnig má finna þar skýringar fjölda orða, þar sem tekin eru upp bæði heiti og kenningar, sem koma fyrir í vísunum. Enn fremur má þar finna nöfn margs konar hluta og áhalda, sem sögurnar nefna, og kemur skráin því að sumu leiti í stað nafnaskrár. Skrá þessa hefir tekið saman Hermann Pálsson stud mag. og lagt alúð við að gera hana sem bezt úr garði.
   Það er að lokum ósk mín, að Fornaldarsögur Norðurlanda megi hitta fyrir sér marga gamla kunningja og eignast enn marga nýja vini meðal hinnar yngri kynslóðar.

Reykjavík, 30. nóv. 1944.

GUÐNI JÓNSSON.