Um byggðir Íslendinga og Norðmanna á Grænlandi á miðri 14. öld
Velg språk | Norrønt | Islandsk | Norsk | Dansk | Svensk | Færøysk |
---|---|---|---|---|---|---|
Denne teksten finnes på følgende språk ► | ![]() |
![]() |
![]() |
|||
![]() |
||||||
![]() |
||||||
![]() |
og um afdrif hinnar ísl. nýlendu þar.
(Eptir Grænl.annálum og bendingum í þeim).
NORÐANFARI.
Hálfsmánaðar blað Íslendinga
Akureyri 16. ár., 1877.
Tölublað 41-46. Side 83-92.
Ívar hefir maður heitið Bárðarson, líklega norrænn að kyni. Hann var prestur að vígzlu og sendur árið 1341 til Grænlands af Hákoni Björgynjar biskupi, liklega til aðstoðar, Árna biskups gamla í Görðum, sem þangað hafði vígst og farið 1315. Má ráða það af annálum og fornum brjefum, sem til eru, að þessi Ívar prestur hefir lengi verið ráðsmaður í Görðum á Grænlandi og líklega í biskups stað lengi, því Árni biskup var gamall orðinn, þá Ívar kom vestur og dó skömmu seinna (fyrir 1339). Að vísu var Jón biskup skalli Eiríksson vígður til Garða 1349, en hann fór þangað aldrei, svo menn viti, flæktist heldur út hingað og víðar, varð loksins biskup á Hólum 1357. Álfur bískup var vígður til Garða 1365 (kom til Grænlands 1368, dó 1378). Er því svo talið í annálum að biskupslaust hafi verið um þessar mundir á Grænlandi, um 19 ár, og er líklegt að Ívar prestur hafi lengst af þá stund, verið þar fyrir biskupsdómi. Var hann jafnan í ferðum og erindum, stólsins vegna, víða um Grænlands byggðir þar sem stóllinn átti eignir og svo milli Grænlands og Björgynjar í Norvegi, (þaðan var þá eina verzlunin til Grænlands).
Hann var og í herferð Grænlendinga í vesturbyggð árið 1347 móti skrælingjum, þegar þeir veittu þar árasir byggða mönnum.
Eptir þessum Ívari Bárðarsyni hefir rituð verið líklega um miðja 14. öld lýsing Grænlands byggðar, sem þá var. Sú ritgjörð var á norrænu og er nú glötuð. (Heyra má af ritum Bjarnar á Skarðsá, að hann þekkti hana). En þýðingar af henni eru til á dönsku, þýzku, hollenzku og ensku. Eru örnefnin í þeim öllum svo bjöguð, að bágt er úr sumum að ráða. Skárst eru mörg þeírra í hinni ensku þýðingu. Er þess getið um hana, að hún hafi gjörð verið 1560 eptir norrænu riti, sem fundist hafi skrifað á gamalli reikningsbók á Færeyjum.
Þessi Grænlandsbyggða lýsing Ívars Bárðarsonar er hjer nú sett á Íslenzku, eptir hinni dönsku þýðingu. Er þar fyrst skýrt frá siglingastefnum og vegalengdum til Grænlands frá Noregi og Íslandi, sem tekið er upp í lýsinguna eptir gömlum íslenzkum bókum.
Grænlandsbyggðalýsing, svo sem Ívar Bárðarson sagði frá:
"Svo segja fróðir menn, sem fæddir eru á Grænlandi og farið hafa á milli, að frá, Staði i Noregi sje 7 dægra sigling beint í vestur til Horns á Íslandi austanverðu. En frá Snæfellsnesi, þaðan sem skemmst er til Grænlands, er 2 daga og 2 nátta sigling beint vestur. Þar eru Gunnbjarnarsker á miðri leið. Þetta var hin gamla sigling. Nú er ís kominn frá landnorður botnum svo nærri skerjum þessum, að enginn getur siglt hina gömlu leið án lífsháska, eins og hjer eptir má heyra.
Frá Langanesi, sem er norðaustast á Íslandi er 2 daga og 2 nátta sigling til Svalbarða í hafsbotnum.
Þeir sem sigla vilja frá Björgýn rjettleiðis til Grænlands og fara fram hjá Íslandi, skulu sigla beint í vestur sunnan við Reykjanes, tylft sjávar sunnan við nesið. Munu þeir þá koma með þessari vestur stefnu undir hæð þá á Grænlandi sem Hvarf heitir. Einum degi áður en þeir sjá Hvarf, eiga þeir að sjá annað hátt fjall, sem Hvítserkur heitir. Milli þessara fjalla Hvarfs og Hvítserks er nes eitt, sem Herjólfsnes heitir, þar er höfn, sem heitir Sandhöfn. Er þar áfangastaður Norðmanna og kaupmanna. Ef menn sigla frá Íslandi, þá eiga menn að stefna undan Snæfellsnesi — en það er tylft sjávar vestar en Reykjanes —, skal halda beint vestur 1 dag og 1 nótt, stefna svo í suðvestur til að komast hjá ísnum við Gunnbjarnarsker, síðan 1 dag og 1 nótt til norðvesturs. Koma menn þá beint undir Hvarf á Grænlandi, þar sem Herjólfsnes liggur hjá og Sandhöfn.
Austasta byggð á Grænlandi er beint austan við Herjólfsnes og heitir Skagafjörður. Þar er byggð allmikil. Langt austur frá Skagafirði er fjörður einn óbyggður, sem Berufjörður heitir. Þar er út í firðinum langt rif þvert fyrir mynnið, svo ekkert stórt skip kemst þar inn, nema með stórstreymi. Þegar flæði er mest fara þar inn margir hvalir og er þar fiskisælt mjög. Í þessum firði er almenningur til hvalveiða og þó með leyfi biskups, því fjörðurinn liggur undir dómkirkjuna. Þar í firðinum er hylur mikill og renna hvalirnir í hann þegar útfellur.
Langt austur frá Berufirði er fjörður sá, sem heitir Öllumlengri. Hann er mjór að utan en breiðari innfrá, og svo langur, að enginn veit hvar endar. Þar er enginn straumur. Alsettur er hann hólmum. Er þar fugl margur og eggver. Sljettlendi er báðumegin grasivaxið svo langt sem nokkur hefir komið.
Lengra austur í nánd við jökulinn er höfn ein. Þar heita Finnsbúðir. Því svo er sagt enn i dag á Grænlandi, að skip hafi brotið þar á dögum Ólafs helga og hafi smásveinn hans verið þar á skipum og drukknað með öðrum. En þeir sem af komust, grófu þar hina dauðu og reistu að steinkross mikinn á gröfum þeirra. Sá kross stendur þar enn í dag.
Austur lengra, skammt frá jöklinum liggur stór ey, sem Krossey heitir. Þar er, almenningur að veiða hvíta birni, og þó með biskupsleyfi, því dómkirkjan á eyjuna. Austur þaðan er ekki að sjá nema ísa og snjó yfir sjó og landi.
Svo vjer komum aptur til efnisins um byggð á Grænlandi, þá hefst sú byggð að austan í Skagafirði, eins og fyrr er sagt, austan við Herjólfsnes. Vestan við Herjólfsnes liggur Ketilsfjörður og er þar allt byggt. Hægramegin þá inn er siglt, er ós mikill þar sem vötn falla til sjávar. Hjá þeim ós er kirkja og heitir Árósskirkja. Hún er vígð hinum helga krossi. Sú kirkja á allt til Herjólfsness eyjar, hólma, skipstrand og allt inn til Pjetursvíkur.
Hjá Pjetursvík er byggð mikil, sem heitir Vatnsdalur. Þar í byggð er vatn mikið, 2 vikur á breidd, fullt af fiski. Pjetursvíkur-kirkja á alla Vatnsdalsbyggð. Inn frá þessari byggð stendur klaustur eitt og eru þar reglumunkar. Það er vígt Ólafi helga og Ágústínusi helga. Klaustrið á allt inn í fjarðarbotn og út með hinumegin.
Næstur Ketilsfirði er Rafnsfjörður. Lengst inn með þeim firði er nunnuklaustur með Benidiktsreglu. Það á allt inn í fjarðarbotn og út frá Vogakirkju, sem vígð er Ólafi konungi helga. Vogakirkja á allt land með firðinum út frá. Í firðinum eru margir hólmar. Á klaustrið helming þeirra en dómkirkjan helming. Á þessum hólmum eru heitar laugar. Þær eru svo heitar á vetrum, að enginn þolir að lauga sig. Á sumrum lauga margir sig í þeim og fá bót meina sinna.
Næst Rafnsfirði er Einarsfjörður. Milli þeirra er höfuðból eitt, sem konungur á og heitir Foss. Þar er vegleg kirkja vígð Nikulási helga og veitir konungur þá kirkju. Skammt þaðan er fiskivatn hið bezta, þegar leysingar eru miklar og rignir, flýtur vatnið til sjávar. Og er það minnkar, fjarar uppi ógrynni fiska á sandinum. Þegar menn sigla inn á Einarsfjörð, er vík til vinstri handar, sem heitir Þorvaldsvík. Og lengra inn í firðinum samamegin er nes eitt, sem Klíningur heitir. Nokkru innar er vík sem Grávik (eða Grandavík) nefnist. Skammt þaðan er bær mikill, sem heitir í Dölum og er dómkirkju-eign. Þegar siglt er inn fjörðinn til dómkirkjunnar, sem stendur inn í fjarðarbotni, þá er til hægri handar skóglendi, sem dómkirkjan á. Í þeim skógi hefir dómkirkjan allan kvikfjenað sinn stóran og smáan. Hún á allan Einarsfjörð, svo hið sama hina miklu ey, sem liggur fyrir Einarsfjarðar mynni og heitir Hreiney, því þangað hleypur á haustin fjöldi hreina. Þar er almennings veiði og þó með biskupsleyfi. Á þessari eyju er bezti tálgusteinn, sem til er á Grænlandi, svo eðlisgóður, að menn höggva úr honum katla og könnur og svo traustur að eldur fær eigi ónýtt hann. Smíða menn úr honum sái, einsteinunga, svo mikla að taka x eða xij tunnur. Lengra vestur þar fyrir landi er eyja sú er Langey heitir. Þar eru Vigbæir stórir. Dómkirkjan á alla eyna nema tíund þaðan. Hún fellur til Hvalseyjarkirkju.
Næstur Einarsfirði er Hvalseyjarfjörður. Þar er kirkja sem kennd er við fjörðin. Hún á allan fjörðin og allan Kambstaðafjörð er næstur liggur. Í þeim firði er stórbýli eitt, sem konungur á og heitir Þjóðhildarstaðir.[1]
Hjer næst kemur Eiríksfjörður. Þar er fyrir fjarðarmynnu eyja, sem heitir Eiríksey. Hún er hálf dómkirkju-eign. En hinn helmingurinn liggur til Dýranesskirkju, Sú kirkja á stærsta sókn á Grænlandi og liggur vestanmegin þá inn er siglt á Eiríksfjörð. Dýranesskirkja á allt inn í Miðfjörð. Sá fjörður liggur út úr Eiríksfirði til norðvesturs. Lengra inn með Eiríksfirði er Sólarfjallskirkja. Hún á allan Miðfjörð. Þar inn frá er Leiðarkirkja og á allt land inn í fjarðarbotn og út hinumegin til Búrfells. En allt út frá Búrfelli á Dómkirkjan. Hjer er eitt stórbýli, sem heitir Brattahlíð. þar er lögmaðurinn vanur að búa.Nú er hjer næst að segja frá eyjum. Vestur frá Langey eru úteyjar, sem Lambeyjar heita. Þar heitir Lambeyjarsund, því það liggur milli Lambeyjar og Langeyjar. Lengra inn frá liggur Fossasund í Eiríksfjarðar mynni. Dómkirkjan á allar eyjarnar.
Norðan við Eiríksfjörð eru tvær víkur, Ytrivik og Innrivík, þeim hagar svo.
Þar norður frá er næstur Breiðifjörður. Skerast úr honum Mjóifjörður, svo norður lengra. Eyrarfjörður, þá Borgarfjörður, þá Loðmundarfjörður. Vestast af allri Austurbyggð er Ísafjörður. Allir þessir firðir eru byggðir.
Frá Austurbyggð til Vesturbyggðar er tylft sjávar og allt óbyggt. þar í Vesturbyggð er ein stór kirkja, er Steinsness (á líklega að vera Sandness) kirkjaheitir. Þar var um stund dómkirkja og biskupssetur. Nú hafa skrælingjar alla Vesturbyggð á sínu valdi. Þó eru þar enn hestar, geitur, naut og sauðfje, allt villt og ekki fólk hvorki kristið nje heiðið.
Allt þetta sem hjer er talið sagði oss Ívar Bárðarson Grænlendingur, sem var um mörg ár formaður (ráðsmaður) á biskupssetrinu Grörðum á Grænlandi. Kvaðst hann hafa sjeð það allt sjálfur. Og hann var einn af þeim, sem lögmaðurinn valdi til að fara í Vesturbyggð móti skrælingjum, að reka þá þaðan. En er þeir komu þangað fundu þeir engan mann, hvorki kristinn nje heiðinn, en talsvert af villifjenaði, sem þeir höfðu hönd á, slátruðu sjer til matar og hlóðu skipin, sem þau gátu borið. Síðan sigldu þeir heim aptur. Svo sagði ívar oss, sem var í þessari för.
Norður frá Vesturbyggð er fjall eitt mikið, sem heitir Himinroðafjall. Fær enginn lengra siglt en til þessa fjalls, sem lífi vill halda, því hafsvelgir eru þar margir hvervetna í sjónum.
Á Grænlandi er silfurberg[2] nóg, hvítir birnir með rauða flekki á höfði, hvítir fálkar (há) hvalatennur, rosmhvalatennur og svörður, fiskakyn margskonar, fleiri en í nokkru öðru landi. Þar er og marmari allavega litur, þar er tálgusteinn, sem eldur vinnur ekki á. Af honum gjöra Grænlendingar, eins og áður er sagt, potta, katla og skálar, og sái svo mikla, að í þeim liggja 10 til 12 tunnur, þar er og gnægð hreindýra.
Stormar koma aldrei miklir á Grænlandi. Snjór fellur þar mikill. En eigi er þar svo kalt sem á Íslandi og í Noregi".
Þessi Grænlandsbyggða skýrsla, sem rituð er eptir Ívari er sú seinasta, sem til er um byggðir Íslendinga og Norðmanna á Grænlandi. Aðrar mikið eldri eru til nokkrar, en flestar stuttar og lýsa að eins fáu. Er svo að skilja, sem Íslendingum hafi margt vel kunnugt verið á Grænlandi á 11. 12. öld, og fram á hina 13., því opt hafi verið milli farið. Eptir það áttu þeir öðru að sinna en slíkum ferðum, þegar óöld norðmanna hin mikla (frá dögum Haraldar gilla fram á daga Hákonar gamla) færðist út hingað, hver höfðinginn vildi hjer annan ofan ríða, landsmenn bárust á banaspjótum, þangað til þjóðin missti frelsi sitt, valdsmenn útlendra konunga páfavilluklerkar og verzlunarkúgun hjálpaðist að til að eyða flestri manndáð í landinu, gjöra lýðinn dáðlausan og prællyndan og færa hann í volæði.
Næsta skýrsla um Grænlandsbyggð á undan Ívars, er að líkindum frá lokum 13. aldar. Eru þar mðrg örnefni, sem vantar í lýsingu Ívars. Enda vanta þar nokkur sem Ívar nefnir. Þar eru og nefndar vegalengdir norður með Grænlandi að vestan og miðað við dagróðra, t. a. m. að úr Austurbyggð til Vesturbyggðar, sje 6 daga róður 6 mönnum á 6 æringi og kemur það eigi saman við skýrslu Ívars, enda telur hann í sinni lýsingu Vesturbyggð komna í eyði.
Í annari skýrslu um Grænlandsbyggð eru taldir 190 bæir í Austurbyggð og 12 kirkjur, en 90 bæir í hinni Vestari og 4 kirkjur.
Engar frásagnir eru til greinilegar um það hvernig byggðir Íslendinga og Norðmanna á Grænlandi hafi eyðst á 14., 15. og 16. öld, svo allur hinn norræni kynstofn var horfin þaðan, þegar ferðir hófust þangað að nýju á 17. öld. En finna má ýmsar bendingar til þess í fornum annálum og skjölum, sem enn eru til.
Má þar til telja verzlunar-einokun og afskiptaleysi Noregs- og Dana-konunga eptir miðja 14. öld, yfirgang og kúgun katólskra klerka, sem lagt höfðu á dögum Ívars Bárðarsonar undir sig alla byggðina og hlunnindi, ránskap Norðurálfu víkinga, seinast á 14. öld og svo á 15. og árásir skrælingja. En hinsvegar blöstu við Grænlendingum hin gæðamiklu lönd á austurströnd Ameríku, sem forfeður þeirra fundu og þeir hafa síðan efalaust haft mörg viðskipti við.
Um miðja 14. öld tók Magnús Noregskonungur Eiríksson það illa ráð upp, að leggja undir sig verzlun á Grænlandi og banna öllum öðrum. Var lagður við lífs og eignamissir. Voru Noregs- og Dana-konungar lengi síðan (um ein 200 ár), að staglast á þessu banni, en skorti ráð og dáð til að halda uppi verzluninni. Er svo að skilja sem Björgynjar-kaupmenn hafi helzt haft hana af hendi konunga. Um þessar mundir voru jafnan deilur og ófriður í Noregi og Danmörku, þjóðirnar dáðlitlar orðnar til athafna af ráðum klerkavalds og aðalsmanna, og útlendir (Hansamenn) rjeðu allri verzlun. Svartidauði æddi yfir löndin og drap niður fólkið 1349 og seinast á 14. öld (1393), þýzkir herjuðu á Björgyn og unnu bæinn, en þaðan hafði helzt verið farið til Grænlands. Fyrir allt þetta lagðist niður verzlun við Grænland. Um sömu mundir flæktust og víkingar úr Norðurálfu við Grænland, rændu þar og verzluðu í óleyfi. Er getið um hernað þeirra þar 1418. Og þó voru konungar smám saman að klifa á verzlunarbanninu og var gengið ríkt eptir, að eigi væri brotið móti, þegar menn komu því við. Það sýndi sig, þegar Björn Jórsalafari, sem hrakti til Grænlands og varð að vera þar 2 ár, var handtekinn í Noregi, er hann kom þangað og kærður um bannaða verzlun við Grænlendinga.
Af skýrslu Ívars Bárðarsonar hjer að framan má vel skilja, að klerkdómur á Grænlandi heifir lagt undir sig alla byggðina og flest hlynnindi, því þar hefir honum lítil mótstaða orðið veitt. Þetta hefir svipt Grænl. öllu frelsi, dregið dáð úr þeim, en hvatt jafnframt til að flýja ánauðina, ef kostur væri á. Eigi gat þeim heldur verið um þessar mundir (á seinni hluta 14. aldar og hinni 15.), mikið lið að stjórnsemi eður formennsku biskupa sinna til manndómsstarfa, því lengst af komu þeir aldrei til Grænlands, er þangað voru vígðir, en flæktust í Noregi, Danmörku og hjer á landi. Þóttust sumir af þeim hafa hjer hiskupa umboð, sem reyndist þá opt lýgi. Þá sóttu og Skrælingjar að Grænlendingum. Er þess getið árið 1379, að þeir hafi drepið 18 menn og flutt 2 drengi burtu í þrældóm.
Allt þetta varð að þröngva kosti Grænlendinga, fækka þeim og hvetja þá sem tórðu, að flýja af landi, með því þeir vissu, að eigi alllangt suðvestur frá blöstu móti þeim góð lönd, sem Leifur heppni kannaði, Þorfinnur kallsefni og margir fleiri. Hafa Grænlendingar síðan jafnan farið þangað, fiutt þaðan ýms gæði og sumir sezt þar að. Finnast ýmsar bendingar til þess að Grænlendingar hafa svo gjört. Því var það að Eiríkur Grænlendinga biskup tókst ferð á hendur árið 1121 suðvestur til Vínlands, til að kristna heiðna Grænlendinga, sem þar bjuggu. Settist biskup þar að og kom aldrei aptur. Er því líklegra að Grænlendingar hafi notað sjer færið að komast til betri landa, því meira sem kreppti að þeim heima verzlunaránauð og verzlunarleysi frá Noregi, klerkavald og skrælingia árásir innanlands.
Og lengi hafa Grænlendingar átt skip svo stór, að þeir gátu farið á þeim suður með Ameríkuströndum. Þaðan hafa þeir efa laust flutt við til skipa sinna og húsa, jafnframt því sem sumur var fluttur framan af frá Noregi. Halldór prestur grænlenzki getur þess seinast á 13. öld í brjefi sínu um norðursetur Grænlendinga í Greipum og á Króksfjarðarheiði, að allir stórbændur á Grænlandi áttu þá stórskip og skútur, sem þeir höfðu í norðursetur og fundu þeir þar rekavið, sem hann telur kominn frá Marklandsbotnum, því það liggi bezt fyrir. Árið 1347 rak grænlenzkst skip undan með 18 manns, hingað til Straumfjarðar í Mýrasýslu og voru á heimleið frá Marklandi.
Það eru því mestu líkur til þess, að allir Grænlendingar, sem helzt var manndáð í, allir, sem verzlunaránauð, klerkavald og Skrælingja árásir fjekk ekki fært í helju (Svartidauði kom aldrei til Grænlands), hafi farið með allt sitt smátt og smátt til Marklands og annara landa hjermegin á Ameríku, en skrælingjar tekið sjer jafnóðum bólfestu í hinum auðu byggðum. Svo getur og verið að nokkrar hræður Grænlendinga hinar dáðminnstu, hafi sameinast skrælingjum og glatað þjóðerni. Svo hefir og líklega farið um Grænlendinga, sem til Ameríku fóru, að þeir hafa blandast saman við þarlendar þjóðir, þegar fram liðu stundir og horfið úr sögunni. Þeir gátu og vel hafa fundið frændur sína á Vínlandi eða Hvítramannalandi er sumar sögur nefna þar aðrar, kalla þar og Ísland hið mikla og er eigi kostur þess, að segja hvar verið hafi hvert þessara landa, því þeir sem þangað lentu á 11. og 12. öld nefna þær stöðvar sínir hverju nafni. En auðráðið er það af sögunum að þau lönd hafa verið þar sem nú heitir Jórvíkurland, Maryland, Virginia, Karolina og Florida. Hjer gátu Grænlendingar vel fundið sína ættmenn, er töluðu sama mál, því marga hefir rekið þangað hjer að austan frá Írlandi, Suðureyjum, Íslandi og frá fleiri löndum. Þangað lenti Ari Mársson frá Reykhólum, tók þar kristni, því þar hefir hann hitt tvo, er kristnir voru, og settist par að. Þangað lenti Björn Breiðvíkingakappi, eptir því er Guðleifur Guðlögsson sagði, er hann kom hingað heim og færði gripina frá Birni. (Hann hrakti í vestur og suðvestur, þangað til hann fann land og þótti honum menn tala þar írsku. Hjer kom Björn til hans). Þá er og líklegt að ýmsir hafi eptir orðið vestra, þegar Grænlendingar sóttu þangað mest á 11. öldinni. Sannar það bezt sagan um kristniboðunarferð Eiríks biskups þangað. Hefir flutningur Grænlendinga vestur gjörzt smám saman og sem í kyrrþey, því þeir áttu þangað opt ferðir og lítill gaumur gefinn að heima á Grænlandi, þó ýmsir kæmi eigi aptur; enda er nú eigi neitt það til, er Grænlendingar hafi ritað um söguatburði hjá sjer. Og Norðmenn sem flæktust þangað aðeins endur og sinnum, egtir að einokunin hófst, til að sækja þangað dýrgripi landsins, hafa engan gaum gefið því pó landsmenn fækkuðu eða færi af landi. Enda var þeim eigi tamt að rita frásagnir, hvorki fyrr nje síðar, og allrasízt á hinum illu öldum þjóðarinnar, þá hin útlenda stjórn og verzlunareinokun var komin þar í land. Þó hafa Íslendingar (sem einir rituðu helzt sögur og fróðleik á miðöldunum, hjer um norðurlönd), náð einhverjum fregnum um þetta og ritað þær á bækur. Hefir Gísli biskup Oddsson í Skálholti lesið þær á gömlum skræðum í Skálholti (áður en bækurnar brunnu þar 1630), eptir því sem hann hefir sjálfur ritað 1637. Sú ritgjörð hans er enn til. Þar segir, að árið 1342 hafi Grænlendingar kastað kristni og farið til Ameríkuþjóða. Segir hann að hættir þeirra hafi áður verið mjög illir orðnir. Er þetta líklega að skilja um einhverja hinu fyrstu, er fjölmennir tóku það ráð, að óhlýðnast kennimönnum og flýja land. Lengi eptir þetta hjelzt þó við töluverð byggð á Grænlandi, jafnvel langt fram á 15. öld eður byrjun hinnar 16. Má þetta ráða af brjefi Grænlendinga til páfans, sem til er enn á páfagarði. Þar klaga Grænlendingar yfir því 1448, að þá vanti biskup og presta. Eptir þetta er trúlegt að þeir hafi þá farið óðum að fara af landi, því þá lögðust niður allar verzlunarferðir þangað eða að mestu leyti. Lengi trúðu menn, eptir að Grænlands byggð var orðin ókunnug mönnum, en farið var aptur að leita Grænlands á 17. öld, að Austurbyggðin hefði verið hjer megin Hvarfs (syðsta odda Grænlands). Nú er það fullsannað af kirkna- og bæjarústum, er þar finnast á eyjum og hjá fjörðum, að hún hefir verið sunnan á Grænlandi hjá Hvarfi og norðvestur frá því. Þar eru firðir margir og eyjar og bæjarústir mjög víða, menjar af vænum og velbyggðum húsum. En Vesturbyggðin hefir verið þar norðvestur frá, svo hún mátti heldur heita norðurbyggð og hin suðurbyggð. En bæði hafa landnámsmenn fært byggðina smám saman norðvestur eptir og kallað þá hina suðaustari Austurbyggð, og svo var áttamiðun Norðmanna og Íslendinga í fornöld opt nokkuð veil, eins og sjá má af sögunum. Þeir nefndu t. a. m. austur á Gautland frá Noregi og er það í suðaustur, vestur á Valland og er það í suðvestur. Svo eru og enn hjer á landi áttamiðanir allavega ruglaðar. Á Austurlandi kalla menn almennt norður það sem er norðvestur, á Norðurlandi aptur norður það sem er norðaustur (s. s. Norður-þingeyjarsýslu hina norðaustari).
Þegar Grænlendingar bjuggu þá sunnan til á landinu og leiðin til Ameríku var fyrir löngu kunnug orðin og þrávallt farin eptir það, þá var næsta árennilegt og fýsilegt fyrir þá, að fara þangað til betri landkosta, en voru sjálfir miklir sjómenn og fullir áræðis, sem vel má skilja af hinum löngu róðrum þeirra og siglingum í norðurseturnar. Þegar þá hvorttveggja hvatti þá, að flýja sitt gæðaminna land, kunnug leið og auðveld til betri landa og margt illt heima, þá er auðráðið að flestir landsmenn muni á endanum hafa leitað til Ameríkulanda. Enda var vegurinn eigi mjög langur, fyrst suðvestur yfir ginnungagap (Davíðssund) rúmar 100 vikur sjávar undir Hellulands-óbyggðir (Labrador), og svo nærri allaleið þaðan suður með ströndum og í landsýn til Marklands (Nýja Skotlands), einar 150 vikur, þegar siglt var sundið milli Hellulandanna (Belle-isle-sund). Eins var það í landsýn þó farið væri suðaustur fyrir Helluland hið minna (Nýfundnaland), þó það væri krókur. Þegar úr Hellulandssundi (Belle-isle-sundi) kom, láu fyrir Marklandsbotnar (Lárentiusflóinn, og botnarnir þar suðaustur af hjá Nýju Brúnsvík og norðanvið Nýja Skotland) og voru þar nógar eyjar á leiðinni. Svo var og auðvelt fyrir þá, að fara alla tíð með löndum fram suður eptir, austanvið Markland og Furðustrendur (á Maine, Massachusset, Nýju-Jórvíkurlandi o. s. frv.), allaleið til Vínlands.
Þessar ferðir virðast því muni verið hafa auðveldar og fýsilegar fyrir Grænlendinga gömlu, sem urðu að vera kunnugir leiðinni, höfðu jafnan í sjóferðum verið og áttu frá mörgu illu að hverfa þá er þeir flýðu sitt land.
En þeir höfðu og reynt, veit jeg menn segja, að sízt var árennnilegt að flytja sig búferlum undir vopn Ameríku-skrælingja. Satt er það, að sögurnar geta þess, að þeir gjörðu Grænlendingum ónæði framan af þegar þeir komu í Ameríku lönd. En svo er liklegt að þeir hafi seinna og smám saman náð friðsamlegum verzlunar-viðskiptum við þá. Euda gátu Grænlendingar hæglega fundið margar þær stöðvar, er Ameríkubúar vitjuðu sjaldan og tekið sjer þar bólfestu. Þegar Ameríka var numin af Norðurálfumönnum á 15. og 16. öld, er þess að vísu hvergi getið, að þeir hafi hitt þar menn af Norðmanna kyni. Slíkt er engin sðnnun móti því að Grænlendingar gömlu hafi eigi flestir lent til Ameríku. Það er hvorttveggja að líklegt er, að Grænlendingar í Ameríku, hafi smám saman blandast saman við þarlenda menn og tekið upp lifnaðarháttu þeirra, enda gáfu nýlendumenn úr Norðurálfu, sem fyrst lögðu þar lönd undir sig á 15. og 16. öld, því allrasízt gaum, af hvaða þjóðum landsmenn mundi upprunnir vera og skildu enga tungu þeirra. Þeir hugsuðu mest um að verja sig árásum landsmanna og ná löndum þeirra, með öllum ráðum, er þeir gátu fundið.
- S. G: 12/4—77.
Athugasemdir: